Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 20. 2013 | 08:00

GKV: Kjartan, Anna Huld og Brynjar sigruðu í afmælismóti GKV

Kjartan Kárason formaður GKV bar sigur úr býtum á afmælismótinu sem haldið var 18. maí í brakandi sumarblíðu á Golfvellinum í Vík. Logn og 14 gráðu hiti lék við klúbbmeðlimi sem mættu á mótið. Kjartan sigraði í höggleik á 75 höggum eða 3 yfir pari. Í punktakeppni í kvennaflokki sigraði Anna Huld Óskarsdóttir á 28 punktum og Brynjar Vigfússon vann yfirburðasigur í karlaflokki og fékk hvorki fleiri né færri en 47 punkta. Afmælismótið var haldið í tilefni af 20 ára afmæli GKV og var frestað frá því í fyrra.

Nándarverðlaun voru veitt á par 3 brautum og gáfu veitingahús í Vík verðlaun. Veitingahúsin Halldórskaffi, Ströndin og Suður-Vík gáfu öll gjafabréf, hvert fyrir eina af par 3 holunum.

Völlurinn er kominn í toppstand og hefur klæðst sumarbúningi. Allt kapp er lagt á að völlurinn verði í óaðfinnanlegu standi fyrir UMFÍ 50+ mótið sem fram fer á Víkurvelli 8. júní.