Ingvar Hreinsson formaður GKS, á fyrsta móti Siglfirðinga á höfuðborgarsvæðinu, á Hlíðarvelli, í Mosfellsbæ, í september 2011. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 20. 2012 | 09:00

GKS: Ingvar Hreinsson er nýr formaður Golfklúbbs Siglufjarðar

Á fréttavef GSÍ, golf.is svæði GKS, er eftirfarandi fréttatilkynning í dag:

„Aðalfundur GKS fór fram í Íþróttamiðstöðinni Hóli laugardaginn 18. febrúar s.l. Ágætis aðsókn var að fundinum. Nokkrar breytingar urðu í stjórn félagsins. Sitjandi formaður Jóhanna Þorleifsdóttir gaf ekki kost á sér áfram og í hennar stað kom Ingvar Hreinsson.

Aðrir í stjórn eru: Þorsteinn Jóhannsson, Þröstur Ingólfsson, Hulda Magnúsardóttir, Kári Freyr Hreinsson, Ólafur Kárason og Kári Arnar Kárason. Í varastjórn voru kostnir Magnús Magnússon, Hallgrímur Vilhelmsson og Jóhann Möller.

Óverulegar breytingar voru gerðar á lögum félagsins og tillaga að breyttu félagsgjaldi samþykkt. Félagsgjald í GKS er nú 25.000 með eindaga 1. maí. Þann 15. febr var samþykkt í Bæjarstjórn Fjallabyggðar deiliskipulag fyrir Hólsdal og þar með leyfi fyrir byggingu 9 holu golfvallar í Hólsdal loksins komið í höfn. Verið er að vinna að samningum við verktaka í jarðvinnsluna og annað sem huga þarf að.

Það er mikill hugur í golfurum á Siglufirði og ánægjulegir tímar framundan. Fráfarandi formaður þakkar stjórnarfólki og golfurum í GKS og öðrum sem hann hefur unnið með fyrir frábært samstarf og óskar nýrri stjórn góðs gengis.“