Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 1. 2014 | 10:25

GKJ & GOB: Er Golfklúbbur Mosfellsbæjar að verða að veruleika?

Stjórn GOB hefir boðað til almenns félagsfundar þar sem lagt verður til að klúbburinn verði sameinaður Golfklúbbnum Kjöl undir merkjum Golfklúbbs Mosfellsbæjar ásamt fleiri málum er getið er í dagskrá fundar.

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 4. desember næstkomandi kl. 20.00 í sal Tannlæknafélagsins, Síðumúla 35, 3. hæð.

Atkvæðarétt og rétt til setu fundar hafa félagsmenn Golfklúbbs Bakkakots sem náð hafa 16 ára aldri. Félagsmenn skulu hafa skilríki meðferðis og framvísa vegna kosningar þegar þess er óskað.

Dagskrá félagsfundar
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Tekið fyrir erindi stjórnar um frágang lánauppgjörs við Byggðarenda ehf.. *
3. Kosning kjörnefndar vegna kosningar um lið 4.. **
4. Tillaga frá stjórn GOB um sameiningu við GKJ og stofnun Golfklúbbs Mosfellsbæjar ( tillögu má lesa hér að neðan ). **
5. Tillaga að lögum GM lögð fram til samþykktar. **
6. Samrunasamningur GM lagður fram til samþykktar. **
7. Kosning 3 fulltrúa frá GOB í stjórn GM til 2 ára. **
8. Kosning 2 varamanna til stjórnar GM frá GOB til 2 ára. **
9. Önnur mál.

Fyrir fundinum liggur eftirfarandi tillaga frá stjórn Golfklúbbs Bakkakots:

„Stjórn GOB leggur til að félagið sameinist GKJ undir merkjum Golfklúbbs Mosfellsbæjar frá og með 1. október 2014. Öll réttindi, eignir og skyldur félaganna færast við sameininguna yfir í sameinaðan golfklúbb. Fyrir fundinum liggja drög að samrunasamningi ásamt lögum hins sameinaða félags sem verða samrunaskjöl GM ef af sameiningu verður. Ef tillaga um sameiningu GKJ og GOB verður felld í öðrum hvorum klúbbnum fellur hún sjálfkrafa niður.“

Samkvæmt lögum félagsins er félagsfundur boðaður með að minnsta kosti viku fyrirvara með tölvupósti á félagsmenn ásamt fréttar inn á heimasíðu félagsins. Félagsmenn hafa fengið hlekki í tölvupósti þar sem hægt er að hlaða niður annarsvegar tillögu að lögum GM og hinsvegar Samrunasamning á milli GKJ og GOB varðandi stofnun GM. Eigi félagsmenn í vandræðum með að nálgast þessi skjöl geta þeir sent póst á gob@gob.is.

Ef ekki næst nægjanlegur fjöldi félagsmanna til að kjósa um liði 4. til 8. mun verða boðaður annar fundur í beinu framhaldi af aðalfundi GOB sem haldinn verður fimmtudaginn 11. desember næstkomandi og verður boðað til formlega í næstu viku.

Stjórn GOB (gob@gob.is)

* Varðandi lið nr. 2 þarf einungis meirihluti félagsmanna sem mæta á löglega boðaðan félagsfund að samþykkja til að samningur öðlist gildi samkvæmt lögum GOB.

** Varðandi liði 4. til 8. þarf helmingur skráðrar félagsmanna í GOB að mæta og 2/3 þeirra að kjósa með tillögur stjórnar til að hún öðlist samþykki enda er þarna verið að samþykkja slit á félaginu. Mæti færri en helmingur félagsmanna munu liðir 1., 2. og að lokum 9. verða teknir fyrir en að svo fundi frestað. Samkvæmt lögum þarf stjórn að boða annan félagsfund innan 3 vikna sem mun þá taka liði 2. – 7. til meðferðar og er sá fundur ályktunarbær á tillits til mætingar félagsmanna og þarf einfaldan meirihluta atkvæða til að tillaga öðlist samþykkt. Fyrir liggur að komi til slíks fundar verður hann boðaður í framhaldi af aðalfundi klúbbsins fimmtudaginn 11. desember næstkomandi.