Ragnheiður Jónsdóttir | september. 10. 2013 | 11:00

GKJ fær umhverfisverðlaun

Golfklúbburinn Kjölur í Mosfellsbæ hlaut umhverfisviðurkenningu á bæjarhátíð Mosfellbæjar „Í túninu heima“  s.l. helgi fyrir „snyrtilegan og vel hirtan golfvöll.“

Ekki er langt síðan að völlurinn var stækkaður í 18 holu golfvöll og síðan þá hefir verið unnið ötullega að því að snyrta og fegra völlinn.

Hlíðarvöllur fellur vel inn í náttúruna og er perla í útvistarsvæði Mosfellsbæjar, en í næsta nágrenni við völlinn eru m.a. reiðstígar, og skokk- og hjólreiðastígar.

Frá vellinum er fagurt útsýni yfir Esjuna, Úlfarsfellið, höfuðborgina og nágrannagolfvöllinn, Korpúlfsstaðarvöll.

Við afhendingu viðurkenningarinnar af hálfu Mosfellsbæjar voru m.a. eftirfarandi orð látin falla:

„Völlurinn er skemmtilega hannaður í góðri sátt við náttúruna og umhverfið í kring og lögð áhersla á að samtvinna legu hans við þá fjölþættu útivistarmöguleika sem eru til staðar meðfram strandlengju Mosfellsbæjar.  Í nágrenni golfvallarins er að finna útivistarstíga meðfram ströndinni, reiðstíga, laxveiðiá, fuglaskoðunarhús og íbúabyggð, auk þeirrar fjölbreytta náttúru og dýralífs sem fær á njóta sín í þessu fallega umhverfi.“