Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 16. 2013 | 21:00

GKJ: 12.8 milljón króna hagnaður – stjórnin endurkjörin

Aðalfundur Golfklúbbsins Kjalar fór fram fimmtudaginn 12. desember síðastliðinn. Tæplega 13 milljón króna hagnaður var af rekstri golfklúbbsins á árinu og stóðust rekstraráætlanir að mestu leyti fyrir árið þrátt fyrir fremur erfitt veðurfar til golfiðkunar. Stjórn GKj gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og var Guðjón Karl Þórisson endurkjörinn formaður klúbbsins, og hefur hann nú sitt annað ár sem formaður klúbbsins.

Golfklúbburinn Kjölur hefur vaxið á undanförnum árum og var fjöldi klúbbmeðlima um 800 talsins á árinu og hafði þeim fjölgað um tæp 10% frá árinu á undan. Í heildina jukust rekstrartekjur klúbbsins um tæp 7% frá árinu á undan. Mikil aukning hefur einnig verið í unglinga- og afreksstarfi klúbbsins, en nú í nóvember var gengið frá samstarfssamningi við Sigurpál Geir Sveinsson í starf íþróttastjóra við klúbbinn.

Árið 2013 var annað árið sem klúbbmeðlimir léku fullan 18 holu völl, en unnið var á árinu að ýmsum verkefnum við að fullklára nýja hluta vallarins. Fram kom á aðalfundi að unnið verður á árinu 2014 við að fullklára keppnisvöllin auk undirbúnings við byggingu nýs golfskála og æfingasvæðis.

Félagsgjöld voru ákveðin fyrir árið 2014 og eru þau eftirfarandi:

Fullorðnir 20-66 ára     kr. 80.000
Unglingar 16-19 ára     kr. 42.000
Unglingar 14-15 ára     kr. 34.000
Börn 11-13 ára              kr. 26.000
Börn 10 ára og yngri     kr. 15.000
67 ára og eldri                kr. 60.000

Stjórn klúbbsins hefur leyfi til að setja á Inntökugjald á árinu 2014.

Einnig  var áfram veitt heimild til að veita þeim einstaklingum, sem misst hafa atvinnuna eða orðið fyrir öðrum alvarlegum fjárhagslegum skakkaföllum af völdum efnahagskreppunnar, afslátt frá árgjöldum til klúbbsins fyrir árið 2014 eða að fella þau niður að fullu.

Á aðalfund mættu yfir 100 klúbbfélagar, en fyrir fundinum lá tillaga um að veita stjórn klúbbsins umboð til formlegra sameiningarviðræðna við Golfklúbb Bakkakots. Tillagan var samþykkt, og munu formlegar sameiningarviðræður milli klúbbanna hefjast á næstu vikum.