Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 27. 2023 | 17:00

GKG: Munaði 1 höggi að Gunnlaugur Árni kæmist g. niðurskurð á St. Andrews Links Trophy

Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG, tók þátt í St. Andrews Links Trophy, sem fram fór dagana 9.-11. júní 2023.

Mótsstaður var sjálf vagga golfsins, St. Andrews í Skotlandi og spilað á báðum völlum þ.e. Old og New Course.

Keppnisfyrirkomulagið var 18 holu höggleikur fyrstu 2 keppnisdagana og síðan 36 holu spil 3. og síðasta keppnisdaginn á Old Course.

Skorið var niður eftir 2 hringi og komust aðeins 42 gegnum niðurskurð.

Aðeins munaði 1 höggi að Gunnlaugur Árni kæmist gegnum niðurskurð, sem miðaðist við samtals 2 undir pari eða betra.

Gunnlaugur Árni spilaði á samtals 1 undir pari, 71 á New og 71 á Old Course.

Sjá má lokastöðuna á St. Andrews Links Trophy með því að SMELLA HÉR: 

Mótið fór fram í fyrsta sinn árið 1989 og hafa margir þekktir kylfingar sigrað á þessu móti. Þar má nefna Ernie Els, Lee Westwood, Trevor Immelman, Geoff Ogilvy, Padraig Harrington, Justin Rose, Rory McIlroy og Francesco Molinari.

Árið 1998 lék Örn Ævar Hjartarson, GS, á þessu móti og náði hann þeim frábæra árangri að leika New Course á 60 höggum eða 11 höggum undir pari vallar. Það vallarmet stóð allt þar til vellinum var breytt.