Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 18. 2013 | 20:00

GKG konur Íslandsmeistarar 2013 í Sveitakeppni GSÍ

Kvennasveit GKG er Íslandsmeistari í Sveitakeppni GSÍ 2013, í 1. flokki kvenna.

Eftir 4 leiki var allt jafnt og í stáli milli GK og GKG; báðar sveitir með 2 vinninga.

Úrslitaviðureignin var því milli klúbbmeistara GK  Þórdísar Geirsdóttur og Særósar Evu Óskarsdóttur, GKG.

Þórdís átti 2 holur á Særósu en tapaði 17. og 18. holu og því fór keppnin á 19. holu.  Á næstu 2 holum  fengu þær báðar góð pör. Allt var jafnt á 3. umfram holunni og því héldu leikar áfram á 22. holu.  Þar lenti Særós Eva í vandræðum en Þórdís setti niður glæsilegt 2 metra par-pútt.  Keilir fagnaði að vonum enda liðið búið að sigra með glæsispilamennsku í keppninni.

Þær fréttir bárust þó fljótt að Gunnar Jónsson, liðsstjóri GKG hefði kært Þórdísi fyrir að brjóta reglu 8-1b þ.e. þiggja ráð frá liðsfélaga sínum Signýju Arnórsdóttur á braut. Reyndar kom aldrei fram að Þórdís hefði verið að þiggja ráð – hún aðeins kallaði til Signýjar og hafði reyndar gert það líka á 2. braut.  Ekkert kom fram um hvað þeim hefði farið á milli.

Kristján Einarsson, dómari, dæmdi þó holutap á Þórdísi og þar með urðu GKG Íslandsmeistararar á grundvelli dómaraúrskurðar.

Sveit GR varð í 3. sæti eftir góðan sigur á sveit NK 4-1;  Sveit GKJ vann sveit GS í leik um 5. sætið og GSS sigraði sveit GO 3&2 í leik um 7. sætið.

GO og GSS eru fallin niður í 2. deild.