Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 28. 2016 | 08:00

GKG: Eva María fór holu í höggi í æfingaferð

Eva María Gestsdóttir, GKG, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi í æfingaferð GKG á Morgado – Alamos vellinum í Portúgal. Eva náði draumahögginu á 3. holu og notaði hún 5-járn. Um var að ræða svokallað „basket“ högg, en það er golfmálið þegar boltinn flýgur beint í holuna án þess að rúlla.

Eva María, sem er aðeins 12 ára, náði þarna draumahögginu í annað sinn á ferlinum. Gestur pabbi hennar keypti lítinn glerkassa fyrir kúluna þegar hún fór holu í höggi í fyrsta sinn og ætlar að kaupa annan eins fyrir kúluna sem hún notaði núna. Spurning hvort hann ætti ekki að kaupa eins og 12 stykki til að eiga því að miðað við frammistöðuna til þessa þá er líklegt að hún eigi eftir að fara oft til viðbótar holu í höggi.

Þess má geta að þetta er fjórða árið í röð sem einhver úr GKG hópnum fer holu í höggi í æfingaferð á vegum klúbbsins!

Hópurinn heldur heim á leið á morgun, en ferðin hefur gengið mjög vel og kylfingarnir fengið að njóta sín við frábærar veður- og golfaðstæður á Morgado, sem er einn af golf-áfangastöðum golfdeildar VITA.

Texti: Úlfar Jónsson