SNAG golfútbúnaður er lítríkur og spennandi fyrir yngstu kylfinganna …. en jafnvel þeir eldri geta nýtt sér SNAG
Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 22. 2014 | 17:00

GK: SNAG vinsælt hjá yngstu kylfingunum í Keili

Undanfarnar vikur hafa golfkennarar Keilis kennt yngstu iðkendum golf á svokölluðum SNAG æfingum í Hraunkoti.

Æfingarnar eru miðaðar við aldursflokkinn 5-10 ára og hefur þátttaka farið fram úr björtustu vonum, einkum hjá þeim yngstu. Þrátt fyrir að æfingar hefjist rétt rúmlega 9 á laugardögum hefur áhuginn ekki látið á sér standa bæði hjá börnum sem og foreldrum. Yngstu iðkendur hafa verið í fylgd með foreldrum á æfingum en þeir hafa tekið að sér hlutverk aðstoðarmanna en einnig fengið að taka þátt í sumum þrautum.

SNAG stendur fyrir Starting New At Golf. SNAG búnaðurinn og kennslukerfið er viðurkennt kerfi sem gerir golfkennslu skemmtilega, aðgengilega, auðvelda og örugga. SNAG hentar báðum kynjum frá fjögurra ára aldri, unglingum, fullorðnum, öldruðum og fötluðum. SNAG má kenna og spila hvar sem er óháð golfvöllum og æfingasvæðum og færa til almennings eftir aðstæðum á hverjum stað.

Við hvetjum alla foreldra sem og iðkendur sem hafa áhuga á kynna sér SNAG golf fyrir yngri kylfinga að hafa samband við Björgvin Sigurbergsson á bjorgvin@keilir.is