Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 11. 2012 | 12:00

GK: Ólafur Þór:„Hvaleyrarvöllur er mjög fínn og undirbúningur fyrir European Challenge Trophy hefir gengið mjög vel.“

Á morgun hefst European Challenge Trophy mótið á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði. Mótið er undankeppni fyrir Evrópumót karlalandsliða sem fram fer í Danmörku á næsta ári og komast þrjú efstu liðin á Hvaleyrarvelli í þá keppni. Alls taka átta þjóðir þátt í mótinu hér á landi og því er mikið undir helgina. Ólafur Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis og mótsstjóri, er fullur tilhlökkunar fyrir mótinu.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Keilir tekur að sér mót sem tilheyrir evrópska golfsambandinu og viljum auðvitað gera allt eins vel og mögulegt er. Við höfum haft mjög gaman af þessum undirbúningi og hlökkum til næstu daga. Það er líklega svipaður fjöldi sjálfboðaliða sem starfar að mótinu og fjöldi keppenda. Það er nauðsynlegt að vera með nokkra forcaddie í hrauninu auk þess sem að skor verður tekið niður á þriggja holu fresti. Allir ættu því að geta fylgst vel með hvernig mótið þróast,“ segir Ólafur.

Hvaleyrarvöllur hefur verið einn besti golfvöllur landsins síðustu ár. Í hvernig ásigkomulagi er völlurinn fyrir mótið í ár? „Hvaleyrarvöllur er mjög fínn og undirbúningur fyrir mótið hefur gengið mjög vel. Hraðinn á flötunum verður um 9 á stimp. Við viljum ekki hafa þær hraðari ef það skyldi fara að blása.“

Fylgjast má með stöðunni á European Challenge Trophy með því að SMELLA HÉR: 

Heimild: golf.is