Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 18. 2012 | 11:30

GK: Golfklúbburinn Keilir á 45 ára afmæli í dag!

Golfklúbburinn Keilir er 45 ára í dag. Af því tilefni er vert að skyggnast um öxl og líta á sögu klúbbsins eins og hún birtist á vefsíðu Keilis, www.keilir.is:

„Í október 1966 var boðað til fundar í Hábæ og komu þar saman sjö áhugamenn um golf. Hafsteinn Hansson virðist hafa haft forgöngu en auk hans voru á fundinum Jónas Aðalsteinsson, Jóhann Níelsson, Daníel Pétursson, Júlíus Sólnes, Hafsteinn Þorgeirsson og Páll Ásgeirsson. Auk þess mætti þar forseti Golfsambandsins, Sveinn Snorrason. Ákveðið var að stofna golfklúbb og efna til stofnfundar snemma árs 1967 og skipuð nefnd til að setja klúbbnum lög.

Stofnfundur var haldinn 18. febrúar 1967 í Félagsheimili Kópavogs; mættu þar 64 menn úr Hafnarfirði, Garðahreppi og Kópavogi. Þeir stofnuðu formlega Golfklúbbinn Keili, en í fyrstu stjórninni voru: Jónas Aðalsteinsson formaður, Sigurbergur Sveinsson, Sigurður Helgason og meðstjórnendur Hafsteinn Hansson og Rúnar Guðmundsson.

Núverandi formaður GK, Bergsteinn Hjörleifsson (t.v.) ásamt bróður sínum Magnús (t.h.). Eitthvað gekk golfið ekki sem skyldi þennan dag hjá Magnús - en svona er golfið stutt milli hláturs og gráturs! Mynd: Golf1.is

Framhaldsstofnfundur var svo haldinn í Sjálfstæðishúsinu í Hafnarfirði 25. apríl 1967. Þar var lögð fram og samþykkt fjárhagsáætlun. Á fundum með sveitastjóra Garðahrepps hafði komið til tals að fá Vífilsstaðatúnið undir golfvöll og fleiri staðir voru kannaðir, en fljótlega fengu menn augastað á Hvaleyrinni og náðust þar um samningar við Hafnarfjarðarbæ. Voru þá enn ábúendur á sumum smájörðunum á Hvaleyri og stóð í talsverðu stímabraki unz allt það land fékkst, sem nú er undir golfvellinum. Fyrsti formaður Keilis, Jónas Aðalsteinsson, átti flestum framar giftusamlegan þátt í að leiða þau mál til lykta. Sumarið 1967 var farið að leika golf á Hvaleyrinni; í fyrstu á 6 holu velli og slegnar flatir, þar sem sléttir blettir voru fyrir.

En íbúðarhúsið að Vesturkoti fékk golfklúbburinn undir félagsheimili.

Eftir landnámið á Hvaleyri og mestu byrjunarörðugleikana var skipulagður þar 9 holu völlur, sem var tilbreytingarríkur og talsvert erfiður. Svo vel hagar til á Hvaleyri, að hægt var að finna slétta bletti fyrir flatir til bráðabirgða, en fljótlega var gengið í að byggja upp teiga. Félagið eignaðist traktor og brautarsláttuvél og sömuleiðis flatarsláttuvél og eftir tíu ára fjárhagsörðugleika, er sá vélakostur nánast óbreyttur.
Magnús Guðmundsson frá Akureyri, fyrrum íslandsmeistari í golfi, teiknaði 9 holu völlinn, sem var í notkun fram í júní 1972. Þá var tekinn í notkun nýr 12 holu völlur, sem félagsmenn höfðu 1971 samþykkt að láta Svíann Nils Skjöld teikna. Ástæðan var sú, að mönnum þótti landsvæðið á Hvaleyri ekki nýtast sem skyldi og yrði hægar að fá viðbótarland fyrir 6 holur en 9.

Nýi 12 holu völlurinn var í fyrstu ívið styttri en verið hafði og víða leikið á bráðabirgðaflatir. Á síðustu fjórum árum hefur verið unnið að gerð teiga og flata svo sem fjárhagslegt bolmagn leyfir, en svo dýr eru þessi mannvirki, að ofætlun hefur verið að ráðast í meira en eina flöt á ári, – enda skiptir kostaður við hverja flöt hundruðum þúsunda.

Sandvíkin - ein glæsilegasta par-3 braut landsins sú 10. á Hvaleyri. Mynd: Golf 1.

Á 10 ára afmælinu stendur uppbygging vallarins þannig, að fjórar flatir hafa verið byggðar upp eftir beztu getu; á þremur stöðum notast flatir frá náttúrunnar hendi, en fimm flatir á ennþá eftir að byggja upp. Helmingur teiganna hefur verið byggður upp, svo viðunandi má telja, – á sex stöðum er ennþá notazt við meira og minna slæma bráðabirgðateiga og fremri teiga er yfirleitt alveg eftir að gera. Bunkera eða sandglompur, sem teljast sjálfsagður hlutur í golfvallararkitektúr, á einnig að mestu leyti eftir að gera. Af þessu sést að nóg verður í að horfa næsta áratuginn, jafnvel þótt völlurinn verði ekki stækkaður frá því sem hann er nú.

Verulegum fjármunum hefur þar á ofan verið varið til endurbóta á golfskála Keilis að Vesturkoti á Hvaleyri. Lofsvert átak hefur verið unnið í þá veru að gera skálann vistlegan og viðbótarhúsnæði, sem meðal annars er hægt að nota fyrir fundi og kvikmyndasýningar, hefur verið innréttað í risinu. Veitingar hafa verið í Hvaleyrarskála frá upphafi, sumarlangt.

Byrjað var að spila Hvaleyrarvöllinn í núverandi mynd árið 1997. Hannes Þorsteinsson teiknaði og hannaði fyrri níu holurnar eða „hraunið“, en fleiri komu að hönnun síðari níu holanna. Fyrri níu holurnar eru í Hvaleyrarhrauni og er spilað í suður frá klúbbhúsinu og svo til baka. Síðari níu holurnar eru á gamla Hvaleyrartúninu þar sem spilað er meðfram strandlengjunni. Á vellinum eru hvítir, gulir, bláir og rauðir teigar og parið er 71 (36 + 35). Hvaleyrarvöllur hefur í gegnum árin verið annálaður fyrir góðar brautir og eftir að nýi völlurinn í Hvaleyrarrauni var opnaður hafa flatirnar fengið lofsverða athygli fyrir að vera sérstaklega góðar.

Keilir hefir átt marga frábæra kylfinga í gegnum tíðina. Einn þeirra er Björgvin Sigurbergsson margfaldur Íslandsmeistari í golfi. Honum ásamt Sigurpáli Geir Sveinssyni er að þakka það frábæra uppeldis og afreksstarf yngri flokka Keilis. Mynd: gsimyndir.net

Keilir hefur allt frá upphafi átt kylfinga í fremstu röð, jafnt í hópi fullorðinna sem yngri kylfinga. Aðeins fimm árum eftir stofnun klúbbsins, árið 1972, eignaðist Keilir sína fyrstu afreksmenn í golfi þegar Alda Sigurðardóttir varð telpnameistari og Sigurður Thorarensen drengjameistari. Þetta var aðeins upphafið af því sem á eftir fylgdi. Úlfar Jónsson varð Íslandsmeistari karla árin 1986, 1987, 1989, 1990, 1991 og 1992 og jafnframt Norðurlandameistari það sama ár. Björgvin Sigurbergsson varð Íslandsmeistari karla 1995 og 1999. Kristín Pálsdóttir varð Íslandsmeistari kvenna 1975 og 1976, Þórdís Geirsdóttir árið 1987 og Ólöf María Jónsdóttir árið 1997 og 1999. Öldunga. meistari kvenna 1999, Kristín Pálsdóttir. Í sveitakeppni GSÍ hefur Keilir sigrað í 1. deild karla samtals 9 sinnum, árin 1974, 1977, 1978, 1988, 1989, 1990, 1991, 1993 og 1995. Kvennalið Keilis hefur sigrað sex sinnum í 1. deild í sveitakeppni GSÍ, árin 1985, 1989, 1991, 1995, 1996 og 1997. Að auki hafa Keilisfélagar unnið til fjölda annarra meistaratitla í hinum ýmsu flokkum yngri sem eldri kylfinga.“

Hvaleyrin. Mynd: Golf 1.