Birgir Björn vann sannfærandi sigur í leiknum um 3. sætið 6&5. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 11. 2013 | 10:00

GK: Birgir Björn og Þórdís leiða í Meistaraflokkum Keilis eftir 1. dag

Í gær hófst keppni í Meistaraflokkum karla og kvenna hjá Golfklúbbnum Keili.

Í efsta sæti í karlaflokki er hinn 16 ára ungi Birgir Björn Magnússon, en hann kláraði 1. hring á 1 yfir pari, 72 höggum.

Á hringnum fékk Birgir Björn 2 fugla, 13 pör og 3 skolla.  Fuglarnir komu á 4. og 5. braut.

Aðeins 2 höggum á eftir Birgi Birni er Benedikt Árni Harðarson á 3 yfir pari, 74 höggum og í þriðja sæti eftir 1. dag er Benedikt Sveinsson á 4 yfir pari, 75 höggum.

Í 4.-6. sæti eru síðan 3 góðir kylfingar: Gísli Sveinbergsson, Sigurður Gunnar Björgvinsson og Ásgeir Jón Guðbjartsson allir á 5 yfir pari, 76 höggum, aðeins 4 höggum frá forystunni og ljóst að keppni í Meistaraflokki karla í Keili verður jöfn og hörð eins og undanfarin ár.

Tveir Meistaraflokkskylfingar karla í Keili eru við keppni á EM karla í Tékklandi, en mótið hefst einmitt í dag, en það eru þeir Axel Bóasson og Rúnar Arnórsson.

Þórdís Geirsdóttir, GK. Mynd: Golf 1

Þórdís Geirsdóttir, GK. Mynd: Golf 1

Í kvennaflokki leiðir Þórdís Geirsdóttir, en hún spilaði 1. hring á 10 yfir pari, 81 höggi. Þórdís á 2 högg á Jódísi Bóasdóttur og Sögu Ísafold Arnarsdóttur, en þær báðar deila 2 . sæti á 13 yfir pari, 83 höggum.  Aðeins lengra er svo í 4. keppanda Meistaraflokks kvenna hjá Keili Önnu Jódísi Sigurbergsdóttur, en hún lék 1. hring á 17 yfir pari, 88 höggum.

3 sterkir Meistararflokkskvenkylfingar eru við keppni á EM kvenna í York á Englandi; þ.e. þær Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Signý Arnórsdóttir og Anna Sólveig Snorradóttir og keppa því ekki á Meistaramóti Keilis að þessu sinni.  Alls vantar 5 meistaraflokkskylfinga í raðir Keilis í þessu Meistaramóti, en eins og sést á ofangreindu er nóg af hæfileikafólki í Keili, sem kemur í stað þeirra sem vantar að þessu sinni.