Einn yngsti klúbbmeistari Keils, Birgir Björn Magnússon, 16 ára, 2013
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 16. 2013 | 11:00

GK: Birgir Björn Magnússon, klúbbmeistari Keilis 2013

Birgir Björn Magnússon, varð klúbbmeistari Keilis s.l. sunnudag og er með þeim yngstu sem orðið hafa klúbbmeistarar Keils. Birgir Björn er fæddur 12. maí 1997 og átti því 16 ára afmæli í vor.

Birgir Björn varð ekki klúbbmeistari drengja 15-16 ára í klúbbnum heldur með meistaraflokki karla, sem er einstaklega glæsilegur árangur, enda lagði hann marga sér eldri og reyndari menn á sunnudeginum!

Þrátt fyrir ungan aldur er Birgir Björn margfaldur Íslandsmeistari. Mörgum er minnisstætt þegar Birgir Björn varð Íslandsmeistari í höggleik í flokki 14 ára og yngri stráka 2011.  Hann innsiglaði Íslandsmeistaratitilinn með stæl 8. ágúst 2011, en hann setti nýtt vallarmet af rauðum í Grafarholtinu, en við það tækifæri spilaði hann á -7 undir pari, 64 glæsihöggum og fékk auk þess örn á par-5 15. braut Grafarholtsins, sem mörgum finnst ein erfiðasta golfbraut landsins.

Birgir Björn Magnússon að fara að slá aðhöggið á 15. braut fyrir erni. Hann lauk hringnum með skor upp á 64 högg og varð Íslandsmeistari 14 ára og yngri, 8. ágúst 2011, með glæsibrag! Mynd: Golf 1

Birgir Björn Magnússon að fara að slá aðhöggið á 15. braut fyrir erni. Hann lauk hringnum með skor upp á 64 högg og varð Íslandsmeistari 14 ára og yngri, 8. ágúst 2011, með glæsibrag! Mynd: Golf 1

Síðastliðið sumar, 2012, spilaði Birgir Björn bæði á Unglingamótaröðinni og Eimskipsmótaröðinni.  Hann byrjaði árið í fyrra á því að fara í æfingaferð með landsliðshópnum, völdum af Úlfari Jónssyni, til Eagle Creek í Flórída, en Birgir Björn var þá sem nú í ár í landsliðinu.

Um vorið 2012 fór Birgir Björn holu í höggi á 8. holu Garðavallar á Akranesi.

Birgir Björn Magnússon, GK við 8. holu á Garðavelli. Mynd: Magnús Birgisson

Birgir Björn Magnússon, GK við 8. holu á Garðavelli. Mynd: Magnús Birgisson

Þetta var þó langt því frá fyrsti ás Birgis Björns því fyrsti ásinn kom hjá Birgi þegar hann fór holu í höggi á 6. braut á Hvaleyrisvelli, 2. maí 2009, þá 12 ára ungur.  Þetta kom kannski ekki á óvart því Birgir beinlínis bjó og býr á Hvaleyrinni, þ.e. Suðurholtinu þaðan sem er fallegt útsýni yfir hraunshluta Hvaleyrarinnar…. og hann þekkir völlinn út og inn.

Birgir Björn gerði það gott á Unglingamótaröð Arion banka í fyrra: hann varð í 5. sæti á 1. móti Unglingamótaraðar Arion banka á Garðavelli; síðan varð hann í 3. sæti á á 2. móti Unglingamótaraðar Arion banka. á Þverárvelli, 3. júní 2012.

Síðan náði Birgir Björn þeim glæsilega árangri að landa 7. sætinu á Finnish International Junior Championship, sem fram fór 27.-29. júní 2012.

Birgir Björn varð í 2. sæti í Íslandsmótinu í höggleik 15-16 ára drengja, í mótinu í Kiðjaberginu:

Sigurvegarar á Íslandsmóti unglinga í höggleik í drengjaflokki 15-16 ára: Birgir Björn Magnússon, GK, varð í 2. sæti; Gísli Sveinbergsson, GK, Íslandsmeistari í höggleik í drengjaflokki; Ernir Sigmundsson, 3. sæti. Mynd: golf.is

Sigurvegarar á Íslandsmóti unglinga í höggleik í drengjaflokki 15-16 ára: Birgir Björn Magnússon, GK, varð í 2. sæti; Gísli Sveinbergsson, GK, Íslandsmeistari í höggleik í drengjaflokki; Ernir Sigmundsson, 3. sæti. Mynd: golf.is

Birgir Björn varð síðan Íslandsmeistari í holukeppni 2012 í piltaflokki:

Íslandsmeistarinn í holukeppni í drengjaflokki, Birgir Björn Magnússon, GK, f.m.; Aron Snær Júlíusson, GKG, t.v. hlaut 2. sætið og Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG, t.h.i hlaut 3. sætið. Mynd: gsimyndir.net

Íslandsmeistarinn í holukeppni í drengjaflokki, Birgir Björn Magnússon, GK, f.m.; Aron Snær Júlíusson, GKG, t.v. hlaut 2. sætið og Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG, t.h.i hlaut 3. sætið. Mynd: gsimyndir.net

Loks varð Birgir Björn Íslandsmeistari sveitakeppni GSÍ í drengjaflokki með A-sveit Keilis:

Íslandsmeistarar í sveitakeppni GSÍ í flokki 15 ára og yngri drengja - A-sveit Golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði, skipuð 4 Íslandsmeisturum. F.v. : Atli Már Grétarsson, Helgi Snær Björgvinsson, Birgir Björn Magnússon (heldur á Íslandsmeistaraverðlaunagripnum), Henning Darri Þórðarson og Gísli Sveinbergsson. Lengst til vinstri er liðsstjóri og þjálfari drengjanna Sigurpáll Geir Sveinsson. Mynd: gagolf.is

Íslandsmeistarar í sveitakeppni GSÍ í flokki 15 ára og yngri drengja – A-sveit Golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði, skipuð 4 Íslandsmeisturum. F.v. : Atli Már Grétarsson, Helgi Snær Björgvinsson, Birgir Björn Magnússon (heldur á Íslandsmeistaraverðlaunagripnum), Henning Darri Þórðarson og Gísli Sveinbergsson. Lengst til vinstri er liðsstjóri og þjálfari drengjanna Sigurpáll Geir Sveinsson. Mynd: gagolf.is

Nú í ár spilar klúbbmeistari Keilis bæði meðal þeirra bestu á Eimskipsmótaröðinni sem og á Íslandsbankamótaröðinni og er þegar farinn að láta að sér kveða þar.

Þannig varð Birgir Björn í 2.-4. sæti á 1. móti Íslandsbankamótaraðarinnar í Þorlákshöfn:

F.v:  Pétur Aðalsteinsson frá Íslandsbanka, Henning Darri Þórðarson, GK í 2.-4. sæti;  Óðinn Þór Rikharðsson, GKG, sigurvegari  Gísli Sveinbergsson, GK 2.-4. sæti og Birgir Björn Magnússon 2.-4. sæti, GK

Síðan voru ákveðin vonbrigði hjá Birgi að verða aðeins í 2. sæti á 2. móti Íslandsbankamótaraðarinnar sem fram fór á Strandarvelli á Hellu, en hann leiddi fyrir lokahringinn eftir frábæran fyrri hring þar sem hann fékk m.a. 2 erni og var á glæsiskori upp á 68 högg! Það var einungis magnaður hringur Fannars Inga Steingrímssonar, GHG, upp á 61 högg, seinni daginn sem varnaði þvi að Birgir Björn næði fyrsta sigri sínum á Íslandsbankamótaröðinni í ár.

Á þriðja móti Íslandsbankamótaraðarinnar í ár, sem var Íslandsmótið í holukeppni hafnaði Birgir Björn í 3. sæti:

Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG, 2. sæti; Gísli Sveinbergsson, GK Íslandsmeistari og Birgir Björn Magnússon, GK, 3. sæti. Mynd: Golf 1

Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG, 2. sæti; Gísli Sveinbergsson, GK Íslandsmeistari og Birgir Björn Magnússon, GK, 3. sæti. Mynd: Golf 1

Klúbbmeistari Keilis 2013 missti síðan af 4. mótinu á Íslandsbankamótaröðinni þar sem hann var við keppni á Finnish International Junior Championship í Vierumäki í Finnlandi, þar sem honum gekk ágætlega.

Nú verður bara spennandi að sjá hvað Birgir Björn gerir á 5. móti Íslandsbankamótaraðarinnar, sem hefst á Jaðarsvelli eftir 4 daga og síðan á Íslandsmótinu, sem fer fram 9. ágúst á Hólmsvelli í Leiru!

Birgir á ekki langt að sækja golfhæfileikana, en foreldrar hans eru Magnús Birgisson, golfkennari MP Academy og Ingibjörg Guðmundsdóttir.  Birgir Björn á tvo bræður Sindra og Pétur.