Gísli Sveinbergsson, GK. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 23. 2014 | 12:18

Gísli lauk keppni í 3. sæti – Bjarki í 25. sæti!!!

Íslensku strákarnir sem þátt tóku í Opna finnska meistaramóti áhugamanna stóðu sig frábærlega.

Mótið fór fram í Helsinki Golf Club í Finnlandi 21.-23. ágúst 2014.

Gísli Sveinbergsson, GK, lauk keppni í 3. sæti ásamt Belganum Samuel Echickson á samtals 3 undir pari, 210 höggum  (69 69 72).

Stórglæsilegur árangur þetta hjá Gísla og í 2. sinn á skömmum tíma sem hann nær að verða á verðlaunapalli á móti erlendis, en Gísli varð einnig í 3. sæti á Brabants Open í Hollandi fyrir viku síðan.

Óljóst var í gær hvort Bjarki Pétursson, GB, myndi komast í gegnum niðurskurð, en hann gerði gott betur og landaði 25. sætinu af þeim 40 sem komust í gegnum niðurskurð af 90 keppendum mótsins.  Bjarki bætti sig með hverjum degi og lauk keppni á 9 yfir pari, 222 höggum (75 74 73).

Í efsta sæti varð „heimamaðurinn“ Lauri Ruuska, en það er nafn sem vert er að leggja á minnið en þessi strákur á framtíðina fyrir sér og við eigum eflaust eftir að heyra af honum á einhverri stóru mótaröðinni. Ruuska lék á samtals 7 undir pari. Í 2. sæti varð Austurríkismaðurinn Lukas Lipold á samtals 6 undir pari.

Sjá má lokastöðuna á Finnish Amateur Championship með því að SMELLA HÉR: