Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 24. 2013 | 10:30

Garcia ætlar að tala við Tiger

Sergio Garcia ætlar sér að reyna að ná tali af Tiger á Opna bandaríska risamótinu, sem hefst í næsta mánuði.

Garcia lét falla umdeild orð um að hann myndi bjóða Tiger í mat og hafa „djúpsteiktan kjúkling“, sem margir túlkuðu sem kynþáttaníð.

George O´Grady, framkvæmdastjóri Evrópumótaraðarinnar bætti síðan „gráu ofan í svart“ þegar hann var að reyna að bæta fyrir orð Garcia, en gerði í raun allt verra þegar hann sagði marga vini Garcia vera litaða (ens. colored), sem er bannorð um þeldökkt fólk, en rétta hugtakið sem nota ber á ensku er svartur (black). Orðið „colored“ er særandi í hugum margra þeldökkra Bandaríkjamanna.

Garcia sagðist þegar hafa sett sig í samband við Mark Steinberg, umboðsmann Tiger. Aðspurður á blaðamannafundi á Wentworth hvort hann hefði talað við Tiger sjálfan svaraði Garcia: „Því miður ekki, en ég hef þó talað við Mark Steinberg og hann sagði að þeir ætluðu sér bara fram á við. Og ef ég næ að tala við Tiger þá mun ég örugglega gera það ef ég fæ færi á því og sé hann á Opna bandaríska.“

Sergio Garcia sagðist ekki hafa fundið fyrir andúð áhorfenda á Wentworth í sinn garð (líkt og hann varð fyrir á The Players á TPC Sawgrass). „Þetta var allt í lagi þarna úti í dag en þetta hefir verið erfið vika, en að mestu leyti er allt í lagi,“ sagði hann „Mér fannst áhorfendur allt að því hlýlegir og fólkið studdi mig og leikfélaga mína.“

„Það hjálpaði mikið til og eins og ég hef alltaf sagt er ég mjög, mjög heppinn vegna þess að mér finnst fólk á mínu bandi hvert sem ég fer og ekki bara í Evrópu. Þannig að ég er mjög þakklátur fyrir það og móttökurnar sem ég fékk.“

Varðandi athugasemd O´Grady sagði Garcia: „Ég heyrði ekkert hvað hann sagði vegna þess að ég var að spila í dag, en mér hefir síðan verið sagt frá því… mér finnst þetta óheppilegt.“

Opna bandaríska fer fram 13.-16. júní 2013 í Merion golfklúbbnum í Ardmore, Pennsylvaníu.  Gaman að sjá hvort Tiger og Garcia tekst að grafa stríðsöxina þá!