Ragnheiður Jónsdóttir | september. 2. 2014 | 12:30

Gallacher, Poulter og Westwood val Paul McGinley

Fyrirliði liðs Evrópu í Ryder Cup keppninni, Paul McGinley tilkynnti í dag um þá 3 sem hann hafði tök á að velja í lið sitt, en það voru þeir: Ian Poulter, Lee Westwood og Stephen Gallacher.

Valið á Poulter kom engum á óvart, en e.t.v. er umdeildara valið á Westwood, því honum hefir ekkert gengið sérlega vel, það sem af er ársins og virðist kominn í liðið á fornri frægð.

Alltaf varð augljósara hins vegar eftir því sem leið á gærdaginn að val McGinley yrði Skotinn Stephen Gallacher en aðeins 1 höggi munaði að hann kæmist sjálfkrafa í liðið eftir að hann varð í 3. sæti á Opna ítalska, sem og að þungavigtarmenn í Ryder bikars liði Evrópu voru búnir að lýsa stuðningi við Gallacher; menn á borð við Rory McIlroy, Graeme McDowell og Martin Kaymer.

Ryder bikars lið Evrópu 2014 er skipað eftirfarandi kylfingum:

1. Rory McIlroy, Norður-Írland 2. Henrik Stenson, Svíþjóð  3. Sergio García, Spánn 4. Justin Rose, England 5. Martin Kaymer, Þýskaland 6. Thomas Bjørn, Danmörk 7. Victor Dubuisson, Frakkland 8. Jamie Donaldson, Wales 9. Graeme McDowell, Norður-Írland 10. Stephen Gallacher, Skotland 11. Lee Westwood, England 12: Ian Poulter, England