Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 18. 2014 | 11:45

Gallacher mætir Els í heimsmótinu í holukeppni

Nú í vikunni hefst á Dove Mountain í Marana, Arizona heimsmótið í holukeppni.

Það eru 64 sterkustu kylfingar heims að undanskildum Tiger, Phil og Adam Scott, sem þátt taka í mótinu.

Í stað þeirra þriggja keppa þeir Richard Sterne, Scott Piercy og Kiradech Amphibarnrat.

Eini Skotinn í þessum 64 kylfinga hóp er Stephen Gallacher, sem varði titil sinn svo glæsilega á Dubai Desert Classic nú í ár og er vegna þess kominn í 14. sæti á evrópska Ryder bikar listanum og í 7. sæti Race to Dubai.

Gallacher mætir fyrrum meistara Opna breska, Ernie Els í 1. hring.  Aðrar paranir eru m.a. þær að Rory mætir Boo Weekley og Matt Kuchar mætir Austurríkismanninum sterka, Bernd Wiesberger.

Verðlaunin í heimsmótinu í holukeppni eru $ 9 milljónir.