Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 9. 2015 | 11:00

GA: Stefnt að opnun Jaðars 23. maí nk.

Þó svo að sumrið sé aðeins að láta bíða eftir sér þá eru vorverkin komin á fullt á Jaðri.

Búið er að planta nokkrum trjám við gömlu flötina á 1.braut og eiga fleiri eftir að bætast við, auk þess sem gömlu glompunum verður lokað og verður svæðið því allt talsvert fallegra en það hefur verið undanfarin ár.

Einnig hefur verið unnið í drenvinnu á 13. braut, hún hefur verið að stríða þeim í GA og vonum þeir GA-menn að með þessu þá lagist hún til muna. Einnig var búin til glompa fyrir framan vatnið hægra megin á brautinni.

Eins og vonandi flestir vita þá taka GA-ingar tvær nýjar brautir í notkun í sumar, stefnt er að því að taka þær í notkun strax og völlurinn verður opnaður. Eins og staðan er í dag þá lítur mjög vel út með að það takist. Við þessa breytingu þá færist æfingasvæðið GA-inga þar sem gömlu 8. og 9. brautirnar voru. Þó svo að ekki verði æfingaskýli í sumar þá ætla þeir GA-menn  samt sem áður að færa æfingasvæðið. Búið er að laga til svæðið vestan megin við fjósið og þar verður boltavélin staðsett. Það verður því stutt að fara til að slá nokkra bolta á æfingasvæðinu í sumar.

Veðrið hefur því miður ekki verið að leika við Norðanmenn undanfarna daga og mikill kuldi verið norðan heiða. Þrátt fyrir þessa kuldatíð þá lítur völlurinn vel út og staðan bara nokkuð góð og GA-ingar því mjög bjartsýnir á sumarið. Ekki er hægt að opna völlinn laugardaginn 16. maí eins og vonir stóðu til. Nú er stefnt að opnun laugardaginn 23. maí.

Heimild: GA