Arctic Open fór fram í 28. skipti sl. ár, 2014.
Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 19. 2015 | 16:00

GA: Golfklúbbur Akureyrar 80 ára!

Í dag er stór dagur hjá Golfklúbbi Akureyrar þar sem klúbburinn fagnar 80 ára afmæli sínu.

Það var 19 ágúst 1935 sem 27 menn hittust í Samkomuhúsinu Skjaldborg á Akureyri, í þeim tilgangi að stofna golfklúbb á Akureyri og var Gunnar Schram kosinn fyrsti formaður Golfklúbbs Akureyrar og var fyrsti golfvöllurinn 6 holur á Gleráreyrum.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag státar GA af einum glæsilegasta golfvelli landsins á Jaðri. Miklar breytingar hafa átt sér stað á vellinum á undanförnum árum og sér nú fyrir endann á þeim.

Nú í sumar klárast framkvæmdir við 6 holu æfingavöll og á haustmánuðum verður hafist handa við að byggja upp æfingaskýli sem fengið hefur nafnið Klappir.

Íslandsmótið í golfi fer fram á Jaðarsvelli á næsta ári og verður spennandi að sjá bestu kylfinga landsins etja kappi á jaðarsvelli eftir þær viðamiklu breytingar sem völlurinn hefur gengið í gegnum.

Golf1 óskar félagsmönnum í GA til hamingju með afmælið!!!