Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 24. 2020 | 12:00

GA: Ástand Jaðarsins í dag og koma Birgis kylfusmiðs til Akureyrar 15. feb. nk

Á vefsíðu Golfklúbbs Akureyrar má m.a. lesa eftirfarandi fréttir um ástand Jaðarsins og ferð Birgis V. Björnssonar, kylfusmiðs, norður á Akureyri (um að gera að nýta sér komu hans og fara í mælingu!!!):

„Veturinn hefur verið býsna harður eins og flestir félagsmenn okkar hafa tekið eftir, mikið snjómagn liggur yfir vellinum eftir snjóþunga mánuði. Grínin urðu þó auð í byrjun desember og voru klakalaus í lok desember.
Á fyrstu dögum í janúar byrjaði klaki að safnast og hefur tíðin í upphafi árs verið frekar óhagstæð varðandi klakamyndun. Þá hafa starfsmenn okkar fylgst grant með stöðu mála og hefur verið mokað af grínum fyrir síðustu tvær hlákur. Tekist hefur vel að lágmarka myndun klaka á grínum en notast er við gatara til að brjóta klakann af flötunum þegar búið er að blása snjóinn af.
Við bíðum því spennt eftir næstu hláku sem mun hjálpa okkur. Meðfylgjandi myndir neðst í frétt sýna vallarstarfsmenn vinna á klakanum.

Biggi kylfusmiður á leið norður
Birgir V. Björnsson, golfkylfusmiður og golfkennari mun koma norður laugardaginn 15. febrúar og vera með mælingar á golfkylfum hjá okkur. Birgir verður í Golfhöllinni á milli 10:00 og 17:00. Birgir er sá færasti á sínu sviði hér á Íslandi og sérsmíðar golfkylfur eftir hentileika hvers og eins.
Hægt verður að prufa nýjustu Titleist og Ping kylfurnar og fá fullkomna mælingu frá Birgi. Pantanir fara fram á jonheidar@gagolf.is – einstakt tækifæri fyrir kylfinga. Í pöntun þarf að koma fram nafn og kennitala þess sem ætlar að fá mælingu.
Tilvalið að koma í mælingu og finna hvernig kylfur skal kaupa sér fyrir haustið, forgjafalækkandi kylfur á góðu verði! Nánar um Birgi á golfkylfur.is“

Myndir hér að neðan og í aðalmyndaglugga af Jaðrinum teknar í dag, 24. janúar 2020: