Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 20. 2012 | 12:50

GA: Ævarr Freyr í hópi afreksíþróttamanna Akureyrar – er kylfingur GA 2011

Í hófi á Hótel Kea á Akureyri s.l. miðvikudag voru íþróttamönnum Akureyrar veittar viðurkenningar.  Í hópi afreksíþróttamanna Akureyrar er kylfingurinn Ævarr Freyr Birgisson, GA.  Ævarr er fæddur 16. nóvember 1996 og því 15 ára. Hann er sonur kylfingsins Hörpu Ævarrsdóttur, lögfræðings, hjá sýslumanninum á Akureyri.

Ævarr Freyr Birgisson. Mynd: gagolf.is

Á heimasíðu Golfklúbbs Akureyrar er eftirfarandi frétt um kjör íþróttamanns Akureyrar:

„Íþróttamaður Akureyrar 2011 var kynntur í gær (18. janúar 2012) í hófi á Hótel KEA, sundkonan Bryndís Rún Hansen var hlutskörpust þriðja árið í röð. Í öðru sæti varð handknattleiksmaðurinn Oddur Gretarsson, leikmaður Akureyrar, og í þriðja sæti Helga Hansdóttir júdókona úr KA. 

Við sama tækifæri var þremur einstaklingum veittar viðurkenningar fyrir störf þeirra í þágu íþrótta. Þetta eru Fríða Pétursdóttir, sem um árabil stóð í framvarðarsveit Fimleikafélagsins, Þóroddur Hjaltalín dómari, sem einnig sat í áraraðir í stjórnum Íþróttafélagsins Þórs og Þórarinn B. Jónsson sem hefur setið í stjórnum Þórs, Skíðafélagsins og Gólfklúbbsins og fl.

Ævarr er kylfingur GA 2011, hann vann 1. flokk karla í Meistaramóti klúbbsins með yfirburðum, hann var Norðurlandsmeistari, hann vann 2 mót af 4 í Norðurlandsmótaröð unglinga í flokki 15 – 16 ára, var í 2. og 3. sæti í hinum tveimur. Ævarr var tvisvar á topp 10 á GSÍ mótaröð unglinga og nokkrum sinnum þar rétt við. Hann var í 8 sæti á íslandsmóti unglinga og endaði í 11 sæti á stigalista GSÍ mótaraðarinnar hann er á yngra ári þar og voru einungis 3 ofar en hann á listanum fæddir 1996. Ævarr var valinn í æfingahóp GSÍ einnig var hann valinn í karla sveit GA sem keppti í 1. Deild í sveitakeppni GSÍ. Hann var í A sveit GA unglinga sem lenti í 4 sæti af 22 sveitum, vann alla sína leiki þar. Hann tók þátt í 2 af 4 mótum í Norðurlandsmótaröð lágforgjafarkylfinga fullorðinna, spilaði þar í 1. Flokki varð í 2 sæti í fyrra mótinu og í 3 – 6 sæti á lokamótinu. Ævarr er ungur og efnilegur kylfingur sem á eftir að láta mikið til sín taka á næstu árum. Hann hefur sett sér mikil og göfug markmið í golfíþróttinni í framtíðinni. Óskum við honum velfarnaðar og til hamingju með þennan titil. Forgjöf hans lækkaði um 3.6 á árinu og er nú 5.7.“

Golf 1 tekur undir hamingjuóskirnar – Ævarr Freyr innilega til hamingju!