Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 1. 2013 | 07:00

Fyrsti sigur Rory í ár! Scott náði ekki þrennunni

Rory McIlroy krækti sér í fyrsta sigur sinn á árinu á Australian Open nú í nótt.

Fyrir lokahringinn var Rory 4 höggum á eftir Adam Scott og virtist sem ástralska þrennan myndi falla í skaut Masters sigurvegara ársins og aðal stolts heimamanna, Ástrala, í golfinu um þessar mundir.

Adam Scott í sandglompu á 1. holu

Adam Scott í sandglompu á 1. holu

En Rory setti þar strik í reikninginn – Hann átti frábæran lokahring upp á 66 högg, sem Scott átti ekkert svar við, en Scott lék á 71 höggi og því vann Rory með 1 höggs mun.

Reyndar var það þannig að Rory var búinn að vinna upp 4 högga forskot Adam Scott á 8. holu, en Scott setti niður 3 metra pútt á 9. holu og náði aftur 1 höggs forystu.  Seinni 9 voru æsispennandi, enginn annar en Adam Scott og Rory sem áttu sjéns á sigri, sem í raun vannst ekki fyrr en Rory setti niður fuglapútt á 18. flöt fyrir 1. sigri sínum á árinu!!!!

Samtals spilaði Rory á 18 undir pari, 270 höggum (69 65 70 66), en Adam Scott lék á samtals 17 undir pari, 271 höggi (62 70 68 71).

„Frá því í lok september hefur mér fundist ég á betri stað, á betri stað andlega með nokkra af þáttunum á golfvellinum,“ sagði Rory m.a. eftir sigurinn.

„Menn eiga langan feril í golfi og ég er 24 ára. Ég verð svolítið óþolinmóður stundum og ef ég tek skref aftur á bak og lít á heildarmyndina, þá hefir þetta ekkert verið svo slæmt ár.“

Rory viðurkenndi að hann væri svolítð sakbitinn yfir að hafa eyðilagt þrennu Adam Scott og hældi honum á hvert reipi.

„Hann hefir átt æðislegt ár, hann er Masters meistarinn, hann vann eitt af FedEx Cup mótunum. Hann kom hingað til Ástralíu og vann Australian PGA og síðan Australian Masters og heimsbikarinn í síðustu viku,“ sagði Rory.

„Hann er sannur herramaður og hann er plús fyrir leikinn en líka stór plús fyrir land sitt. Ég var bara heppinn að sigra í dag.“

Lesa mátti vonbrigðin af andliti Adams, svo augljós voru þau í viðtalinu eftir lokahringinn. Scott hafði eftirfarandi að segja um lokahringinn:

„Þetta hefir verið frábært ár. Augljóslega vildi ég ekki klára það á þessum nótum. Ef ég hefði ekki spilað vel fyrstu dagana og spilað frábærlega í dag og hefði orðið í 2. sæti þá hefði ég orðið verulega vonsvikinn nú fyrir jólin, þannig að svona lít ég á það,“ sagði Scott sem setti nýtt vallarmet í Royal Sydney Golf Club á fimmtudaginn s.l. (62 högg).

„Mér finnst ég iðurdreginn. Ég hef aldrei átt betri möguleika á að vinna Australian Open en þetta var orðið ansi þröngt allar síðustu 9 holurnar.“

„Það gekk ekkert upp hjá mér á flötunum í dag. Ég gæti hafa stungið þessu móti í vasann snemma dags ef pútterinn hefði hegðað sér eins og hann á að gera, eins og hann gerði alla s.l. viku, en ég gerði mistök á síðustu holu og góður kylfingur eins og Rory nýtir sér það tækifæri.“

Í 3. sæti varð John Senden á 11 undir pari, 277 höggum, 7 höggum á eftir Rory og 6 höggum á eftir Adam Scott.

Til þess að sjá lokastöðuna á Australian Open SMELLIÐ HÉR: