Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 1. 2012 | 07:00

Fyrsta úthlutun úr minningarsjóði Harðar Barðdal í haust

Minningarsjóður Harðar Barðdal til styrktar fötluðum kylfingum var stofnaður sumarið 2011 til þess að heiðra minningu Harðar Barðdal, frumkvöðuls og afreksíþróttamanns úr röðum fatlaðra. Markmiðið er að halda á lofti þeim kyndli er Hörður tendraði með starfi sínu í þágu fatlaðra íþróttamanna almennt og í þágu fatlaðra kylfinga sérstaklega.

Níu ára að aldri fékk Hörður lömunarveiki en hann lét það aldrei aftra sér í leik og starfi. Afrekaskrá hans í íþróttum og frumkvöðlastarf á því sviði ber vitni um eljusemi, baráttuhug og jákvæðni sem gaf öðrum í sömu stöðu aukið þor og vilja til að standa jafnfætis ófötluðum. Hann var sæmdur gullmerki ÍF árið 1994 fyrir störf sín í þágu íþrótta fatlaðra.

Hörður var frumkvöðull íþróttastarfs fatlaðra á Íslandi og keppti hann m.a. í sundknattleik (ófatlaðra), sundi, skíðum og golfi. Hann var einn af fyrstu keppendum Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík, var valinn Íþróttamaður ársins meðal fatlaðra árið 1977, auk þess sem hann sat í stjórn Íþróttasambands fatlaðra fyrstu árin eða fram til 1986. Hann var hvatamaður að stofnun vetraríþróttastarfs fatlaðra hér á landi, auk þess sem hann var meðal stofnenda Golfsamtaka fatlaðra fyrir nokkrum árum, í samstarfi við Golfsamband Íslands, og formaður samtakanna til dauðadags. Einnig sat hann í stjórn Golfsambands fatlaðra í Evrópu (EDGA: European Disabled Golf Association).

Stofnfélagar Minningarsjóðs Harðar Barðdal eru móðir Harðar, Sesselja G. Barðdal, dætur hans þrjár, Jóhanna, Sesselja og Fanney, Kristmann Magnússyni í Pfaff, Íþróttasamband fatlaðra og Golfsamband Íslands.

Sjá má vefsíðu tileinkaða Herði Barðdal með því að SMELLA HÉR:  

Einnig má sjá Wikipedia síðu með því SMELLA HÉR: 

Stefnt er því að fyrsta úthlutun úr sjóðnum fari fram á haustmánuðum þessa árs, en sjóðurinn stefnir að því að styrkja mismunandi verkefni, hvort heldur er einstaklinga, þjálfara eða verkefni tengd útbreiðslumálum á landsvísu, að því gefnu að þau verkefni samræmist reglum sjóðsins að öðru leyti.

Þeir sem vilja heiðra minningu Harðar og gefa í sjóðinn er bent á bankareikning 0313-22-000271 í nafni GSÍ (kt. 580169-2799).