Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 7. 2013 | 13:00

Fyrsta stigi breytinga á St. Andrews lokið

Þrátt fyrir gagnrýni á breytingarnar sem ákveðið var að gera á St. Andrews, er fyrsta stigi þeirra nú lokið.

Minniháttar breytingar hafa verið gerðar á 2., 7., 11. og 17. holu svona í fyrstu atrennu en halda á breytingunum áfram næsta vetur, en þá verða 3., 4., 6., 9. og 15. hola teknar fyrir.

Helsta breytingin var gerð á gömlum glompum fyrir framan 2. flöt en það var fyllt upp í þær og tveimur nýjum glompum komið fyrir,  18 metrum fyrir aftan nálægt teig.

Tvíburaflötin á 7. holu og  par-3 11. holunni hefir verið víkkuð til þess að hægt sé að hægt sé að bjóða upp á fleiri pinnastaðsetningar og Road Hole glompan á par-4 17. brautinni hefir verið breikkuð, til þess að gera leikinn enn erfiðari.

Fréttir um breytingarnar á St. Andrews var víða tekið illa af leikmönnum m.a. sagði Peter Thompson, fimmfaldur sigurvegari á Opna breska:„Þetta er eins og martröð.“

Ian Poulter liggur sjaldnast á skoðun sinni. Hann sagði m.a.: „Ef þeir breyta Old Course á St. Andrews eru þeir brjálæðir. Völlurinn er frábær, látum móður náttúru um vinningsskorið.“ …. og  …..

„Ég veit, málum yfirvaraskegg á Monu Lisu, ég er viss um að öllum myndi líka það.“

Frægt verk Duchamp, en hann málaði yfirvaraskegg á Monu Lisu 1919 við mikla hneykslun listunnenda

Frægt verk Duchamp, en hann málaði yfirvaraskegg á Monu Lisu 1919 við mikla hneykslun listunnenda

Og enn einn atvinnukylfingurinn, Geoff Ogilvy notaði Monu Lisu samlíkinguna: „Það veldur vonbrigðum að eini tilgangur þeirra (breytinganna) sé að við (atvinnumennirnir) verðum á aðeins hærra skori og það er skammarlegt, ógeðslegt að það sé bara af þeirri ástæðu sem þeir eru að þessu. Ég meina ég á ekki til orð til að lýsa hrokanum að gera eitthvað þessu líkt, það er ótrúlegt. Þetta er svipað og ef einhver myndi segja Mona Lisa er að fölna setjum aðeins meiri lit á hana þannig að fólki líki betur við hana. Eða Sixtínska kapellan hún er of lítil fyrir þann fjölda sem vill fara í gegnum hana – stækkum hana bara!“

Framkvæmdastjóri R&A, Peter Dawson sagði að, að mestu leyti væri St. Andrews óbreytt og við breytingarnar væru ekki notaðar stórvirkar vinnuvélar heldur fremur handafl, menn með skóflur og hjólbörur.