Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 22. 2014 | 15:30

Fulltrúar kylfinga á blaðamannafundi GSÍ 22. maí 2014

Fulltrúar kylfinga á blaðamannafundi GSÍ, sem haldinn var í dag, voru að þessu sinni  þau Ragnhildur Kristinsdóttir, GR; Rúnar Arnórsson, GK og Andri Þór Björnsson, GR. Þau spila öll á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar n.k. laugardag.

Það verður virkilega spennandi að fylgjast með framangreindum kylfingum á Íslandsbanka- og Eimskipsmótaröðunum í sumar.

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, er  ein af okkar alefnilegustu golfkonum. Hún er fædd 6. september 1997 og verður því 17 ára seinna á árinu. Hún mun spila bæði á Íslandsbankamótaröðinni og Eimskipsmótaröðinni.

Rúnar Arnórsson, GK, var nú nýlega að skrifa undir samning við University of Minnesota um að spila í bandaríska háskólagolfinu næsta haust, með golfliði skólans.   Sjá frétt Golf1 þar um með því að SMELLA HÉR:   Rúnar er fæddur 11. júní 1992 og verður því 22 ára í n.k. mánuði.

Andri Þór Björnsson, GR, er öllum hnútum kunnugur í bandaríska háskólagolfinu, þar sem hann spilar með golfliði Nicholls State og er á næstsíðasta ári (ens. junior). Andri Þór er næstforgjafarlægsti kylfingurinn sem þátt tekur í Leirunni en hann er með – 1.9 í forgjöf.  Sá forgjafarlægsti er klúbbfélagi hans Haraldur Franklín Magnús, GR,  með – 2,4 í forgjöf.  Andri Þór er fæddur 10. nóvember 1991 og er 22 ára.