Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 13. 2013 | 11:00

Frægir kylfingar: Samuel L Jackson tíar upp í Joburg

Ef leikarinn Samuel L Jackson hefði fengið tækifæri í lífinu telur hann að hann gæti hafa orðið jafn góður kylfingur og hann er leikari.

„Ég ólst upp í fátækrahluta Tennessee, og í hverfinu okkar notuðum við Quaker Oats box fyrir fótbolta og hnullung umvafinn dagblaði, sem hafnarbolta,“ sagði hinn hressi 64 ára leikari, sem komið hefir fram í yfir 100 kvikmyndum þ.á.m.  Pulp Fiction.

Samuel L Jackson og Selwyn Nathan framkvæmdastjóri Sólskinstúrsins

Samuel L Jackson og Selwyn Nathan framkvæmdastjóri Sólskinstúrsins

Jackson er þessa dagana í Suður-Afríku við tökur á kvikmyndinni Kite og tók þátt í Telkom PGA Championship pro-am í Country Club Johannesburg (Joburg) í gær sem sérlegur gestur framkvæmdastjóra Sólskinstúrsins, Selwyn Nathan.

„Það var ekki nokkur leið“ sagði Samuel með áherslu „að krakkar eða unglingar gætu verið í golfi, en ekki aðeins vegna þess að það var of dýrt heldur vegna þess að ríku, snobbuðu golfklúbbarnir vildu ekki að litaðir menn gerðust félagar í klúbbunum þeirra.“

„Þegar ég byrjaði að spila golf, þegar ég var næstum 50 ára,  féll ég strax fyrir leiknum,“ sagði Jackson.  Hann er nú  með 6 í forgjöf og á hring upp á 1 undir pari, 71 högg í klúbbnum sínum Mountain Gate í Los Angeles.

„Ég hef alltaf verið í íþróttum og golfið mitt batnaði fljótt. Hvað ef ég hefði byrjað 40 árum fyrr? Hver veit? Ég hefði kannski ekki orðið eins góður og Tiger Woods, en þið mynduð eflaust kannast við mig,“ sagði hann og það skrölti í honum hláturinn.

Jackson sagði að það sem nefnt væri “the zone” í golfi ætti sér hliðstæðu í leiklist. „Góðir leikarar ná andartökum þar sem senan á sér stað án nokkurra átaka.“

„Það er auðveldara fyrir mig að ná þeim stað í golfi, vegna þess að leikurinn er köllun mín. En ég hef komist í „the zone“ í golfinu nógu oft til þess að kannast við tilfinninguna og reyni að öðlast hana á ný, þó það sé ekki auðvelt.“

Vegna frægðar sinnar sem Hollywoodstjarna fær Jackson að spila í Pro-Am mótum með bestu kylfingum heims og eins spilar hann á einhverjum af bestu golfvöllum heims.

Samuel L. Jackson á Michael Jordan Celebrity Golf Invitational. Til vinstri má sjá vin hans og spilafélaga Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseta, sem einnig lék í mótinu.

Samuel L. Jackson á Michael Jordan Celebrity Golf Invitational. Til vinstri má sjá vin hans og spilafélaga Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseta, sem einnig lék í mótinu.

„Daginn sem ég spilaði með Tiger Woods á St. Andrews var ég hræddur, verð ég að viðurkenna,“ sagði hann eitt sinn í viðtali við Golf Digest. „En ég reyndi að vera rólegur og var á 78 höggum, sem ég er stoltur af.  Tiger hefir mikið skap en Arnold Palmer hefir jafnvel enn meira. Ég hef spilað með „kónginum“ (Arnie Palmer) nokkrum sinnum. Í hvert sinn sem hann fær skolla, blótar hann á flatarkantinum og hefir orðaforða, sem þið mynduð vart trúa!“

Golf hefir alla tíð verið vinsæl íþrótt meðal leikaranna í Hollywood og meðal þeirra fremstu þar eru Dennis Quaid (með 2 í fgj.), Hugh Grant (með 7 í fgj.), Bill Murray (með 7 í fgj.) og Kyle Maclachlan (með 8 í fgj.).  Þessir framangreindu hafa auk Jackson komið reglulega fram í the Alfred Dunhill Links Championship í Skotlandi.

Sumt af kyntáknum Hollywood (og hér er ekki hægt að þýða) „find it a lot easier pulling birds than birdies“ (þ.e. eiga auðveldar með að stíga í vænginn við konur en fá fugla – missir sig í þýðingu).  Þannig er George Clooney með 25 í forgjöf alveg eins og Arnold Schwarzenegger. Svo eru nokkrir jafnvel með enn hærri fogjöf t.a.m. Russell Crowe, Pierce Brosnan, Bruce Willis og Íslandsvinurinn Tom Cruise þeir eru allir með 36 í fogjöf!