Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 30. 2018 | 12:00

Frægir kylfingar: Cheryl Ladd spilar eins og engill

Cheryl Ladd er einn af upprunalegum englum Charlies.  Flestir af yngri lesendunum kannast kannski ekki við hana heldur aðeins nýrri útgáfuna af “Charlies Angels” með þeim Drew Barrymore, Cameron Diaz og Lucy Liu í aðalhlutverkum.

Við sem eldri erum munum hins vegar eftir upprunalegum englum Charlies; Jaclyn Smith, Heather Locklear og Cheryl Ladd.

En Cheryl Ladd hefir ekki aðeins leikið engil, hún spilar líka golf eins og engill.

Cheryl hefir spilað golf í 35 ár, segist hafa byrjað í golfi árið 1983. Hún hefir verið dugleg að taka þátt í Pro-Am mótum stjarnanna og hefir m.a. spilað á Pro-Am mótinu á Pebble Beach. Eins er Cheryl dugleg að taka þátt í mótum þar sem stjörnur koma fram, spila golf og safna fé til góðgerðarmála.

Cheryl sagði í nýlegu viðtali að þegar hún byrjaði í golfinu hefði aðeins ein önnur kvenstjarna spilað golf, Dinah Shore. Cheryl sagði að þegar hún byrjaði hafi hún fallið flöt fyrir golfinu og spilað mikið allar götur frá því hún kynntist golfinu fyrst.

Hún sagði að fyrsta mótið, sem hún tók þátt í, hafi verið LPGA Pro-Am mót, þar sem meðspilari hennar hafi verið japanskur kylfingur sem talaði ekki stakt orð í ensku. Hún sagði þetta hafa verið nokkuð sérstaka reynslu, engir áhangendur hafi fylgt þeim og enginn hafi túlkað þannig að hún gat ekkert spjallað við meðspilara sinn.  Hún sagði þó að sér hafi fundist gaman að spila og verið ánægð að hafa komið og tekið þátt.

Cheryl sagði að flestir spilafélagar hennar væru karlar og sem dæmi um karlkyns félaga sem hefðu tekið henni, oftast einu konunni í hópnum, án fordóma; án þess að þykjast vera yfir hana hafnir eða vera með þröngsýna karlrembustæla væru stjörnur á borð við Robert Wagner, Clint Eastwood, Jimmy Connors, Michael Douglas og Mark Spitz allt miklir vinir hennar, sem aldrei settu fyrir sig að einn af föstu spilafélögunum væri kona.

Cheryl skrifaði bók um reynslu sína “Token Chick” og heitir einn kaflinn í bók hennar “Boys Behaving Badly” eða ((golf) strákar sem hegða sér illa). Skv. Cheryl finnst henni eldri karlar oft vera meiri karlrembur, þótt það sé ekki algilt.  Hún nefnir sem dæmi Burt Lancaster, en hann hafi eitt sinn þegar til stóð að spila, ranghvolft augunum þegar hann sá hana og gengið í burtu.  Cheryl segist þó hafa unnið hann yfir með því að vera vingjarnleg og með því að slá boltann vel en segir það að vera meðtekin af honum hafi verið erfiðisvinna.

Fyrir þá sem vilja kynna sér bók Cheryl Ladd nánar þá heitir hún eins og áður segir Token Chick – A Women´s Guide to Playing with the Boys og kom út fyrir fimm árum, þ.e. í maí, árið 2005. Meðhöfundur bókarinnar er Bob Hellman.