Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 21. 2019 | 16:45

Frábær árangur íslenskra kylfinga á heims- leikum Special Olympics! Ásmundur Þór m/silfur!

Heimsleikar Special Olympics hófust um miðjan mars en stór hópur Íslendinga er í Abu Dhabi þar sem keppnin fer fram. Alls taka 192 þjóðir þátt og um 150 Íslendingar eru í Abu Dhabi í tengslum við heimsleikana, keppendur og aðstandendur þeirra.

Þrír íslenskir kylfingar tóku þátt í golfkeppninni á Special Olympics og stóðu þeir sig gríðarlega vel. Keppni í golfi lauk í dag en keppnisdagarnar voru alls fjórir.

Elín Fanney Ólafsdóttir, Ásmundur Þór Ásmundsson og Pálmi Þór Pálmason kepptu fyrir Íslands hönd og stóðu sig með prýði eins og áður segir. Ásmundur Þór gerði sér lítið fyrir og nældi í silfurverðlaun. Elín Fanney og Pálmi Þór voru hársbreidd frá því að komast á verðlaunapall. Sannarlega glæsilegur árangur.

Elín og Pálmi kepptu í hópi 5 þar sem leiknir voru fjórir 18 holu keppnishringir. Ásmundur Þór keppti í hópi 5 þar sem leiknar voru 9 holur á fjórum keppnisdögum.

Aðstæður voru krefjandi þrátt fyrir að hitastigið væri á bilinu 25-27 gráður. Vindurinn lék stórt hlutverk á keppnisvellinum og sandfok var annað slagið í mestu hviðunum.

Íslensku keppendurnir á Special Olympics 2019 – Frá vinstri: Karl Ómar Karlsson þjálfari, Elín, Ásmundur og Pálmi.

Heimild: GSÍ