Ángel Cabrera á the Masters 2009
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 7. 2022 | 08:00

Úr Græna Jakkanum og í fangelsi

Myndin af honum hangir enn  í blaðamannahúsinu á Augusta National, á milli mynda af Trevor Immelman og Phil Mickelson. Stóllinn hans á Champions Dinner sl. þriðjudagskvöld var hins vegar tómur og hafi hann fengið boðskort, þá sá það enginn.

Núna þegar 86. Masters risamótið fer fram situr Angel Cabrera í argentínsku fangelsi. Hann afplánar tvö ár fyrir heimilisofbeldi og líkur eru á að hann gæti átt yfir höfði sér enn lengri dóm.

Dýrðardagur hans á Masters árið 2009 virðist hafa átt sér stað í annarri vídd – annarri veröld og er svo órafjarlægur honum nú.

Cabrera var ólíklegur risamótsmeistari til að byrja með, argentínskur götustrákur, sem ólst upp án foreldra og fékk enga formlega menntun. Mikill mannfjöldi tók á móti honum þegar hann flaug heim eftir sigur á Opna bandaríska 2007 og það var skrúðganga honum til heiðurs.

Síðan varð hann tvisvar sinnum risamótsmeistari – og var fyrsti Suður-Ameríkaninn til að klæðast græna jakkanum eftirsótta – með því að sigra í eftirminnilegum 3 manna bráðabana á Masters, árið 2009. Framtíð hans í golfi virtist björt.

En fallega lífssaga Cabrera hefir nú tekið beygju til hins verra og enginn getur spáð fyrir um hvenær hann verður laus og því síður hvernær eða hvort hann muni spila golf aftur.

Upplýsingar um mál Cabrera eru óljósar – en staðreyndin er að hann var ákærður fyrir kynbundið ofbeldi gegn fyrrverandi maka og gæti átt yfir höfði sér viðbótartíma fyrir að hóta konunni í síma eftir að hafa verið ákærður. Saksóknarar skoða einnig ásakanir tveggja annarra kvenna, þar á meðal barnsmóður hans, og lögfræðingur hans segir að líkur séu á að hann verði ákærður fyrir fleiri brot.

Það sem er ljóst er að Cabrera – sem var handtekinn í Brasilíu í janúar 2021, eftir að saksóknarar gáfu út alþjóðlega handtökuskipun á hendur honum vegna þess að hann var ekki við fyrstu réttarhöld sín – var sakfelldur í júlí 2021 fyrir að ráðast á, hóta og áreita Ceciliu Torres Mana, sambýliskonu sína á árunum 2016 til 2018. Ekki er áætlað að hann verði látinn laus úr fangelsi fyrr en í fyrsta lagi í janúar næstkomandi.

Þetta voru ekki brot,“ sagði lögfræðingur Cabrera, Carlos Hairabedian, við Associated Press símleiðis í gær frá Argentínu. Lögmaður vildi meina að  ákærurnar á hendur Cabrera hefðu verið bornar fram af hefnifýsi og reiði. Samnefnari brota Cabrera væri að  ekki væri um líkamlegt ofbeldi að ræða heldur skipti á hástemmdum orðum.

Vegur Cabrera á toppinn og í Græna Jakkann var þyrnum stráður. Hann var yfirgefinn af foreldrum sínum og var farinn að vinna fyrir sér 8 ára  Hann byrjaði sem kylfusveinn, en ekki leið á löngu þar til hann var farinn að spila sjálfur. Síðan tók við þátttaka í mótum, sem hann vann eitt af öðru og sífellt vænkaði hagur hans.

Það er vonandi að hinn 52 ára „El Pato“ (gælunafn Cabrera, sem þýðir „öndin“ á spænsku og er tilkomið vegna göngulags hans)  komi betri maður út úr öllum þessum leiðindamálum og finni leið sína aftur í golfið.