Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 14. 2012 | 14:15

FORSKOT – Afrekssjóður kylfinga stofnaður 14. júní 2012

Í dag er stór stund fyrir íslenska kylfinga, þegar tilkynnt er um stofnun Afrekssjóðs í þeirra nafni, sem hlotið hefur nafnið FORSKOT. Stofnendur sjóðsins eru Eimskip, Valitor, Golfsamband Íslands, Íslandsbanki og Icelandair Group.  Sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við þá kylfinga, ativnnumenn sem og áhugamenn, sem stefna á að komast í fremstu röð í heiminum í golfíþróttinni.

Jón Ásgeir Eyjólfsson, formaður GSÍ, í ræðustól tilkynnti stofnun afreksjóðs kylfinga - FORSKOTS. Mynd: Golf 1.

Golf verður aftur keppnisgrein á Ólympíuleikunum árið 2016 eftir rúmlega 100 ára hlé.  Sjóðurinn styður íslenska kylfinga til að þeir geti náð því markmiði að komast á Ólympíuleikanna, en til þess verða þeir að ná árangri á Evrópsku mótaröðinni eða PGA mótaröðinni.

Sjóðurinn mun beina sjónum sínum að tveimur til fimm (2-5) kylfingum á hverjum tíma og leitast við að gera þeim auðveldara fyrir að æfa og keppa við bestu skilyrði í samræmi við það, sem gerist á alþjóðlegum vettvangi.

Stofnendur sjóðsins hafa um árabil stutt við íslenska íþróttamenn og hafa kylfingar notið góðs af stuðningi þeirra á liðnum árum.  Með því að sameina krafta þessara aðila verður slagkrafturinn enn meiri og vonandi að þessi samtakamáttur fleyti okkar bestu kylfingum áfram inn á nýjar brautir.

Stofnaðilar sjóðsins leggja mikla áherslu á mikilvægi þess að sterkar fyrirmyndir séu til staðar og það að eiga afreksmenn í íþróttum, sem eru einhverjir mikilvægustu þættirnir í því að fá börn og unglinga til að stunda íþróttir. Því er litið á sjóðinn, sem mikilvægt skref til að efla íþróttir barna og unglinga og hvetja þá til dáða.

Stofnaðilar Forskots við undirritun samningsins, 14. júní 2012. Mynd: Golf 1

Einn fulltrúi frá hverjum stofnaðila er í stjórn sjóðsins og auk þess hefur stjórn sér til ráðgjafar fagteymi, sem gerir tillögur um úthlutanir úr sjóðnum. Í fagteyminu sitja eftirtaldir aðilar:

Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari;

Theódór Kristjánsson, formaður landsliðsnefndar GSÍ;

Brynjar Geirsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari;

Sigurpáll Geir Sveinsson, formaður PGA … og

Gauti Grétarsson, sjúkraþjálfari.

Tveir afrekskylfinganna Birgir Leifur Hafþórsson, GKG og Tinna Jóhannsdóttir, GK voru viðstödd undirritun FORSKOTS samningsins. Mynd: Golf 1

Stjórn sjóðsins hefur ákveðið að styðja eftirtalda kylfinga á árinu 2012 og nemur heildarstyrkurinn um 15 milljónum króna:

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG;

Tinna Jóhannsdóttir, GK;

Stefán Már Stefánsson, GR;

Ólafur Björn Loftsson, NK;

Þórður Rafn Gissurarson, GR.

Stífar kröfur eru gerðar til þessara íþróttamanna um ráðstöfun þessara styrkja og ber þeim að leggja fram æfinga- og keppnisáætlanir, auk fjárhags- áætlunar fyrir verkefni sín auk þess sem gerðir eru sérstakir samningar við hvern kylfing um að þeir virði reglur Íþrótta- og Ólympíuhreyfingarinnar.

Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri GSÍ, í ræðustól við undirritun FORSKOTS - nýstofnaðs afreksjóðs kylfinga. Mynd: Golf 1

Það kom fram í ræðu Harðar Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra GSÍ, að það færi eftir verkefnum hver fengi hverja úthlutun og í því yrði fylgt áliti fagteymisins. Markmiðið væri að koma kylfingi á Ólympíuleikanna, en til þess yrði fyrst að koma íslenskum kylfingum inn á Mótaraðirnar. Á Ólympíuleikunum væru 64 teknir af heimslistunum og væru a.m.k. 2 fulltrúar hverrar þjóðar.  Hörður þakkaði Eimskip, Icelandair Group, Íslandsbanka og Valitor fyrir að hafa með glæsilegum hætti stutt við íslenskt íþróttafólk í dag og vonaði að samstarfið yrði farsælt í framtíðinni.