Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 15. 2019 | 08:30

Forsetabikarinn 2019: Fyrstu orð Tiger e. sigurinn!!!

Matt Kuchar setti niður 5 feta (u.þ.b. 2 metra) fuglapútt á 17. holunni í leik sínum gegn Louis Oosthuizen og tryggði liði Bandaríkjanna 1/2 stigið sem þörf var á til þess að sigra í Forsetabikarnum á Royal Melbourne.

Kuchar var skiljanlega í 7. himni þegar hann fór yfir á 18. holu. Aðrir liðsfélagar hans, sem lokið höfðu leikjum sínum föðmuðu hvern annan en allt loft var úr vonsvikna Alþjóðaliðinu.

Sjónvarpsupptökuvélum og míkrófóni var troðið í andlitið á fyrirliða Bandaríkjamanna, Tiger Woods og hann beðinn um fyrstu orð eftir sigurinn.

Okkur tókst þetta saman,“ sagði Tiger með tárin í augunum. „Við komum hingað sem liðsheild. Liðsfélagar mínir og strákarnir mínir spiluðu allir vel.“

Þetta andartak  og orð eins eitilharðasta keppnismanns í yfir 2 áratugi (Tiger) snart alla.

Ég hef grátið, næstum alltaf þegar við höfum unnið bikar,“ hélt Tiger fram. „Ég hef gert það í langan tíma.“

Aðstoðarfyrirliðarnir Fred Couples og Steve Stricker nutu þess báðir að sjá Tiger tapa sér svolítið. Couples lýsti sjálfum sér og Stricker sem „væluskjóðum“ þannig að það væri nú næs að hafa smá kompaní svona einu sinni.

Ég elska það að sjá aðra hrærða og gráta,“ sagði Stricker, „sérstaklega Tiger Woods.“

Couples bætti við: „Faðmlagið sem hann gaf öllum var svo innilegt. Hann er góður maður og það er gaman að vera í liði með honum.“