Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 23. 2012 | 07:15

Fore!

Myndin með grein þessari er af þýskri bók sem heitir „Ætti ég að hrópa FORE! eða hvað?“ og er alveg þrælskemmtileg aflestrar.  Þar eru sagðar skemmtilegar sögur af golfvellinum um nokkrar af helstu golfreglunum.

Inn um lúgur landsmanna ættu þessa dagana að vera að detta eintök af Golfreglubókinni, sem gott er að hafa meðferðis í settinu. Gott er að grípa til bókarinnar komi upp einhver vafamál á golfvellinum í sumar.

Golfreglubókin 2012-2015  er afar glæsileg og útfgáfa hennar styrkt af tryggingafélaginu Verði, sem á þakkir skilið fyrir að sinna kylfingum vel!

Innan á fremri kápu er einmitt reglan sem allir kylfingar ættu að þekkja – reglan um FORE!!!

Um hana segir í nýju golfreglubókinni þ.e. innan á fremri kápu:

„Ein er sú regla sem allir golfarar fylgja. Ef högg misferst eða einhverjum á vellinum stendur ógn af fljúgandi golfkúlu þá skal kalla hátt og skýrt FORE!!!

Samkvæmt heimildum The British Golf Museum hefur orðið verið notað á golfvellinum frá því um 1881 og er stundum rakið til breskra stórskotaliða, sem áttu að hafa kallað: „FORE!!!“ til að vara nálæga fótgönguliða hennar hátignar við mannskæðum skeytum.

Um gagnsemi orðsins er ekki deilt þótt ýmsar aðrar skýringar séu gefnar á uppruna þess.  Hvað sem öðru líður þá er mikilvægt að sýna tillitssemi og aðgát á golfvellinum og fylgja þeim reglum, sem um golfið gilda.“