Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 24. 2013 | 03:00

FootJoy Bikarinn – ný sveitakeppni golfklúbba

Í sumar verður hleypt af stokkunum nýrri keppni á milli golfklúbba í nágrenni við höfuðborgarsvæðið í samstarfi við FootJoy og Íslensk Ameríska.

Keppt verður með svipuðu sniði og í sveitakeppni GSÍ nema að því leiti að leikið verður bæði með og án forgjafar.

Hverja sveit skipa 8 leikmenn og leika fjórir þeirra með forgjöf en fjórir þeirra án forgjafar.

Leikin verður einföld umferð þar sem allir leika við alla og hvert lið leikur tvisvar á heimavelli. Leiknar verða umferðir í hverri viku fram að meistaramótum golfklúbba í byrjun júlí en keppni hefst í vikunni 27.-2. júní.

Þetta fyrirkomulag gefur almennum félagsmönnum í golfklúbbum tækifæri til að leika fyrir hönd síns heimaklúbbs í keppni við annan golfklúbb.

Einnig skapast í þessari keppni verkefni fyrir keppnissveitir hvers klúbbs sem annars leika einungis eina helgi hvert ár.

Keppni þessi getur því aðstoðað klúbbana við val í keppnissveitir sínar og jafnframt gefið fleirum kost á að reyna fyrir sér við keppnisaðstæður.

Þeir golfklúbbar sem taka þátt í Footjoy Bikarnum þetta árið eru Golfklúbbur Bakkakots, Golfklúbbur Hveragerðis, Golfklúbbur Selfoss, Golfklúbbur Grindavíkur og Golfklúbbur Vatnsleysustrandar.

Klúbbarnir vonast til að þessi keppni verði árleg og muni vaxa með árunum með tilkomu fleiri klúbba og jafnvel fleiri flokka kylfinga.