Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 23. 2012 | 17:00

Flory Van Donck hefði orðið 100 ára í dag

Man nokkur eftir Flory Van Donck í dag?  Hver er kylfingurinn kunna aðrir að spyrja?

Flory fæddist í Tevuren í Belgíu 23. júní 1912 og hefði því orðið 100 ára í dag! Hann dó fyrir 20 árum 14. janúar 1992 þá hátt á áttræðu. Hann er talinn besti kylfingur Belgíu …. og í raun ekki fyrr en í dag að aftur er farið að kræla á Belgum sem eru að gera það gott, en hér er auðvitað átt við Nicholas Colsaerts.

Flory Van Donck (t.v.) tekur við verðlaunum.

Van Donck, sem gerðist atvinnumaður í golfi 1931, sigraði á meira en 50 mótum víðsvegar um heim og flest af virtustu mótum Evrópu. Hann varð m.a. tvisvar í 2. sæti á Opna breska.

Allt þar til menn á borð við Seve Ballesteros og Bernhard Langer komu fram á sjónarsviðið á 8. áratugnum þá var Van Donck einn af fáum kylfingum frá meginlandi Evrópu sem sigraði nokkuð reglulega á mótum á Bretlandseyjum.

Frægð Van Donck hvílir ekki hvað síst á því hversu mikill snillingur hann þótti í púttum, þó púttstrokan væri óhefðbundin þar sem pútterstáin var ekki á jörðinni, eins og er hjá flestum heldur var hún á lofti hjá Van Donck. Hann var með svipaðan púttstíl og japanski kylfingurinn Isao Aoki.

Á einum tímapunkti var Flory Van Donck sá sem unnið hafði flest Opin mót í Evrópu þ.á.m. voru Opna belgíska og Opna hollenska (5 sinnum vann Flory hvort mót), Opna ítalska (4 sinnum), Opna franska (3 sinnum ), Opna þýska og svissneska (tvisvar sinnum hvort mót) og Opna portúgalska (1 sinni).

Flory Van Donck í sveilfu.

Árið 1963 vann Flory 7 mót í Evrópu, sem er met sem hann deilir með öðrum golfsnillingi Norman Von Nida (sem setti sitt met árið 1947).  Fyrir afrekið hlaut Flory, Harry Vardon Trophy.

Til viðbótar því að sigra víðsvegar á golfmótum um Evrópu þá var Flory auk þess með algera yfirburði heima fyrir í Belgíu.  Hann varð belgískur meistari 16 sinnum á árunum 1935-1968 og sigraði Tournament of the Alliance 10 sinnum.

Árið 1960 hlaut hann Trophée National du Mérite Sportif, sem er æðsta viðurkenning veitt belgískum íþróttamönnum.

Flory var fulltrúi Belgíu í Canada Cup, sem síðar varð heimsbikarinn, 19 sinnum. Síðast kom hann fram í móti 1979, þá 67 ára og var sá elsti til að keppa í heimsbikarnum.

Loks mætti e.t.v. geta af mörgum afrekum þessa snillings, sem á aldarafmæli í dag að hann var með lægsta skorið í International Tropy í Portmarnock á Írlandi en meðal keppenda voru margar af golfgoðsögnum allra tíma s.s. Sam Snead, Arnold Palmer, Bobby Locke, Gary Player og  Kel Nagle.

Flory var kvæntur Maria-Hendrika Renneboog og átti með henni 2 börn: Marc og Claudine.