Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 7. 2013 | 14:00

Fjórir góðir golfstaðir í Evrópu (2/4)

Nú er mitt sumar og eflaust margir, sem búnir eru að skipuleggja golfferðir erlendis, síðsumars eða í haust. Ferðaskrifstofur bjóða upp á fjölmargar og fjölbreytilegar ferðir, en þó eru alltaf einhverjir sem kjósa að skipuleggja sitt eigið frí, kaupa sér flugmiða, leigja sér bíl og prófa velli sem landinn er ekki að fjölmenna á.  Fyrir þá sem eru í slíkum hugleiðingum verður hér greint frá nokkrum  góðum hugmyndum næstu daga, sem Golf1 getur hæglega mælt með við kylfinga að prófa:

ÍTALÍA  

Verdura Golf & Spa Resort

Heimilisfang: Verdura Golf & Spa Resort S.S. 115 Km 131 92019 Sciacca (AG) Sikiley

Gistingin á Verdura

Gistingin á Verdura

Lýsing: Almennt er álitið að Verdura sé einn mest spennandi golfstaðurinn í Evrópu í dag, en Verdura golfstaðurinn var beinlínis byggður til þess að vekja aðdáun. Á Verdura golfstaðnum eru tveir 18 holu golfvellir og frábær 9 holu golfvöllur, sem gerir staðinn að frábærum frístað fyrir hópa sem eru að leita að krefjandi og minna krefjandi völlum í bland og stað þar sem hægt er að slappa af.

Verdura vellirnir eru á suðurströnd Sikileyjar og kemur falleg Miðjarðarhafsströndin skemmtilega við sögu. Fyrir frábært útsýni sitt yfir Miðjarðarhafið, gæði vallanna og golfstaðinn sem slíkan hefir Verdura þegar hlotið mörg virt verðlaun, þrátt fyrir að hafa ekki opnað nema fyrir 3 árum, þ.e. 2010.

Verdura er 5 stjörnu staður og verðlag eftir því – þetta er ekki ódýrasti frístaðurinn að fara á!

Frá klúbbhúsi Verdura

Frá klúbbhúsi Verdura

Einkennisholan: er 18. holan á Championship Course, sem margir líkja við Pebble beach Evrópu.

Komast má á heimasíðu Verdura til þess að lesa sig meira til um staðinn og golfvellina með því að SMELLA HÉR: 

Meðal þeirra sem auglýst hafa Verdura er Darren Clarke og má sjá auglýsinguna með því að SMELLA HÉR: