Fannar Ingi Steingrímsson, GHG. Mynd: Steingrímur Ingason
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 28. 2013 | 08:30

Fannar Ingi lauk keppni í 5. sæti á US Kids!!!

Fannar Ingi Steingrímsson, GHG, lauk keppni í 5. sæti á  US Kids Golf Teen World Championship, sem er stórglæsilegur árangur í ljósi þess að keppendur voru 130 víðs vegar að úr Bandaríkjunum og heiminum öllum (m.a. frá Englandi, Kanada, Kína, Costa Rica, Spáni, Mexíkó Litháen, Perú, Nýja-Sjálandi, Ítalíu, Dóminíkanska lýðveldinu, Panama, Suður-Afríku, Suður-Kóreu, Singapúr, Svíþjóð, Guatelmala og Ekvador ).  Fannar Ingi deildi 5. sætinu með Damon Crane frá Kanada og Ryan Chadwick frá Englandi. Í 4 efstu sætunum voru keppendur frá Bandaríkjunum og í 1. sæti Kyle Cornelius, frá Alabama, sem lék á samtals 3 undir pari.  Fannar Ingi var því aðeins 4 höggum frá 1. sætinu!

Leikið var  á einum Pinehurst golfvallanna í National Golf Club  í Norður-Karólínu, Bandaríkjunum, dagana 25.-27. júlí 2013.  Sjá má glæsilegan Pinehurst völlinn sem spilað var á með því að SMELLA HÉR: 

Fannar Ingi átti frábæran lokasprett; lék hringina 3 á samtals 1 yfir pari, 217 höggum (72 74 71). Á lokahringnum, sem Fannar Ingi spilaði á 1 undir pari, fékk hann 5 fugla, 9 pör og 4 skolla. Stórglæsilegt þetta og það í Pinehurst!  Það er ekki annað hægt en að fyllast stolti yfir góðri frammistöðu Fannars Inga, sem á framtíðina fyrir sér í golfinu, enda aðeins 14 ára!

Til þess að sjá lokastöðuna á US Kids Golf Teen World Championship SMELLIÐ HÉR: