Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 2. 2022 | 18:20

Evróputúrskylfingur sem ekki hefir náð 1 niðurskurði í ár hefir eytt $50.000 í atvinnumennskubrölt sitt

Já, það er dýrt að vera atvinnumaður í golfi þegar illa gengur.

Það hefir ástralski kylfingurinn Scott Hend (Hendy) fengið að reyna í ár.

Frá 17. janúar á þessu ári hefir hann tekið þátt í 9 mótum, en aldrei náð niðurskurði.

Tap hans vegna ýmissa fjárútláta, m.a. ferða milli mótsstaða og uppihalds meðan á móti stendur (hótelkostnaður, fæði ofl.) nemur nú, það sem af er árs $ 50.000,- eða um 6,5 milljónum íslenskra króna.

Hinn 48 ára Hendy, sem gerðist atvinnumaður í golfi 1997,  hefir átt betri daga í golfinu en hann er m.a. þrefaldur sigurvegari á Evróputúrnum og hefir þar að auki sigrað 10 sinnum á Asíutúrnum.

Hann var líka á PGA Tour og var meðal högglengstu kylfinga í kringum aldamótin 2000.