Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 16. 2015 | 15:00

Evróputúrinn: Stenson náði ekki niðurskurði – Hápunktar 2. dags – Sjáið ás Rory!!!

Nú er lokið 2. keppnisdegi á Abu Dhabi HSBC Gofl Championship og ljóst hverjir komust í gegnum niðurskurð nú þegar mótið er hálfnað.

Það sem vekur einna mestu athyglina er að nr. 2 á heimslistanum, Henrik Stenson, sem gengið hefir svo vel á lokamóti Evrópumótaraðarinnar í Dubaí komst ekki í gegnum niðurskurð í Abu Dhabi.

Stenson lék samtals á sléttu pari, 144 höggum (76 68) en hefði þurft að vera á samtals skori upp á 2 undir pari til þess að komast í gegnum niðurskurð að þessu sinni.

Stenson var seinn í gang og það var einkum arfaslakur leikur hans á fyrri keppnisdegi upp á 4 yfir pari, 76 högg, sem varð til þess að hann komst ekki í gegn.  Breytti engu þó hann léki eins og engill í dag á 4 undir pari, 68 höggum – slétt par niðurstaðan og það dugði ekki!

Ýmsir aðrir góðir náðu ekki niðurskurði að þessu sinni s.s. maðurinn sem flestir telja næsta Ryder bikars fyrirliða Evrópu 2016 Darren Clarke, sá sem átti titil að verja í mótinu Spánverjinn Pablo Larrazabal; nr. 1 á peningalista Asíutúrsins 2014 David Lipsky, Rafa Cabrera Bello, sem oft hefir gengið vel á eyðumerkurvöllunum og Ítalinn ungi Matteo Manassero svo einhverjir séu nefndir.

Martin Kaymer (13 undir pari) hefir enn 1 höggs forystu á Belgann Thomas Pieters (12 undir pari) eftir stórglæsilegan leik og er í efsta sæti í hálfleik og nr. 1 á heimslistanum Rory McIlroy er búinn að læða sér í 3. sætið á skortöflunni (á 11 undir pari), en náði hann m.a. stórglæsilegum ási á par-3 15. holunni í Abu Dhabi golfklúbbnum, þeim fyrsta á atvinnumannsferli sínum!!! (Sjá í myndskeiði hér að neðan í hápunktum 2. dags).

Nr. 6 á heimslsitanum Justin Rose komst rétt svo í gegnum niðurskurð en hann var nákvæmlega á samtals 2 undir pari – byrjaði líkt og Stenson illa á 73 höggum en náði sér á strik í dag með hring upp á 3 undir pari, 69 högg.  Sem sagt rétt slapp!

Nr. 10 á heimslistanum, Bandaríkjamaðurinn Rickie Fowler, sem þátt tekur í 1. sinn í mótinu,  rétt slapp líkt og Rose, gegnum niðurskurð en eftir frábæran hring í gær upp á 5 undir pari 67 högg átti hann afleitan í dag upp á 3 yfir pari, þ.e. 75 högg.

Spennandi helgi framundan!   Sjá má stöðuna eftir 2. keppnisdag Abu Dhabi HSBC Golf Championships með því að SMELLA HÉR: 

Sjá má hápunkta 2. dags á Abu Dhabi HSBC Golf Championship með því að SMELLA HÉR: