Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 15. 2016 | 10:00

Evróputúrinn: Stenson kylfingur ársins 2016

Henrik Stenson, sem sigraði í ár á Opna breska og varð efstur á stigalista Evróputúrsins, þ.e. The Race to Dubai hefir verið útnefndur Íþrótta maður ársins á Evróputúrnum.

Þetta er í 2. skiptið á 4 árum sem hann hlýtur titilinn.

Stenson átti frábæra 12 mánuði af golfi á árinu þar sem hann sigraði m.a. á BMW International Open í júní áður en hann lyfti Claret Jug minna en mánuði síðar á 145. Opna breska og varð fyrsti sænski karlkylfingurinn til þess að sigra í golfrisamóti.

Epísk viðureign hans við Phil Mickelson á Royal Troon mun líklega verða minnst í golfsögunni sem ein af eftirminnilegustu viðureignunum; en Stenson lauk leik á ótrúlegum 63 höggum – þar sem hann jafnaði lægsta skor sigurvegara á lokahring á risamóti – og sigraði með 3 högga mun á næsta mann, þ.e. á samtals 20 undir pari, 264 höggum.

Í ágúst tók Stenson silfrið á Ólympíuleikunum í Ríó, fyrsta mótinu þar sem golfið var keppnisgrein í 112 ár.

Jafnframt var Stenson í tapliði Evrópu í Rydernum, en vann þó tvímenning sinn g. Jordan Spieth 3&2 og hélt þannig uppi heiðri Evrópu.

Frábær kylfingur Henrik Stenson og vel að heiðurstitlinum kominn, en hann hlaut nú um daginn einnig bikar golffréttaritara, sem völdu hann með miklum meirihluta!