Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 5. 2013 | 15:30

Evróputúrinn: Rumford sigraði í Kína

Ástralinn 35 ára, Brett Rumford, varð í dag aðeins 31. kylfingurinn á Evrópumótaröðinni til þess að vinna tvö mót í röð en hann vann Ballantine´s Open í Icheon, Suður-Kóreu um síðustu helgi á 1. holu bráðabana eftir að hafa fengið glæsiörn.

Í dag var allt miklu meira blátt áfram. Rumford sýndi nokkra yfirburði var á samtals 16 undir pari, 272 höggum (68 67 69 68) og átti 4 högg á næsta keppanda, Finnann Mikko Ilonen sem búinn var að vera í forystu á 2. degi mótsins (þegar hann átti glæsihring upp á 63 högg).

Rumford spilaði stöðugt og gott golf og til marks um það eru allir hringir hans 4 undir 70.

Sigrarnir í Kóreu og Kína eru 4. og 5. sigrar Rumford á Evópumótaröðinni.  Hann var í 138. sæti á peningalista mótaraðarinnar en er nú í 1. sæti eftir að hafa samtals unnið sér inn verðlaunafé upp á €811,806 (þar af €775.406 í síðustu tveimur mótum).

„Eins og í síðustu viku er ég eiginlega orðlaus í augnablikinu,“ sagði Rumford eftir að sigurinn var í höfn.

„Þetta er óraunverulegt – þetta er í fyrsta sinn sem ég hef spilað í móti eftir að hafa sigrað í móti, þannig að ég er meira en ánægður. Það er erfitt að ná þessu!“

Í 4. sæti á samtals 11 undir pari varð Frakkinn Victor Dubuisson; Í 5 sæti á samtals 10 undir pari var Hollendingurinn Robert Jan Derksen, sem leiddi eftir 1. dag mótsins og í 5. sæti á samtals 9 undir pari urðu Spánverjinn Pablo Larrazabal og Portúgalinn Ricardo Santos.

Til þess að sjá úrslitin á Volvo China Open SMELLIÐ HÉR: 

Til þess að sjá hápunkta lokahringsins á Volvo China Open SMELLIÐ HÉR: