Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 23. 2013 | 18:00

Evróputúrinn: Rory byrjar illa á Wentworth

Rory McIlroy var að vonast eftir góðri byrjun á BMW PGA Championship, sem hófst í dag á Wentworth golfvellinum í Englandi, en 5 skollar á síðustu 6 holunum gerðu þær vonir hans að engu.

Það leit í fyrstu vel út hjá hinum 24 ára Rory, en hann spilaði fyrstu 12 holurnar á 3 undir pari.

En í köldum aðstæðum á Wentworth gerði Rory fullt af mistökum og 74 högg staðreynd þegar upp var staðið og er hann 8 höggum á eftir forystumanni 1. dags, James Kingston frá Suður-Afríku.

„Þetta var einn af þessum hringjum, sem bara rann úr greipum mér,“ sagði McIlroy við blaðamenn eftir að hann lauk keppni á skolla sexum á 17. og 18. braut.

„Þetta gæti hafa orðið ágætt og ég gæti hafa verið nálægt toppi skortöflunnar en í staðinn er ég þar sem ég er.“

Þetta var erfiður dagur fyrir aumingja Rory  á hinum 7.302 yarda Vesturvelli Wenthworth og Rory viðurkenndi að hann hefði verið í vandræðum í kuldanum og vindinum.

„Það sem fer alveg með mig er kuldinn og ég var í lúffum allan daginn.“

„Líkami manns er bara ekki sá sami og venjulega (í kuldanum), en í dag er maður orðinn svo vanur því að spila í hlýju veðri. Þetta voru viðbrigði.“ sagði Rory, sem nú býr í Bandaríkjunum og spilar langmest í Bandaríkjunum á PGA Tour.

„Ég sló nokkur laus högg á 13 og 17 og þrípúttaði á 14 og var síðan svolítið óheppinn á 18 þegar teighöggið mitt fór aðeins of langt út í buskann.“

„Ég missti virkilega varla högg á fyrstu 12 holunum og mér finnst að núna sé ég ekki að fá eins mikið út hringjunum mínum eins og ég ætti,“ sagði hann.

„Kannski snýst þetta aðeins um að láta slæmu höggin ekki hafa svona áhrif á mig. Ég veit ekki hvað ég get bent á (sem að er í leik mínum).“