Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 25. 2018 | 23:00

Evróputúrinn: Rai sigurvegari Honma Hong Kong Open

Það var enski kylfingurinn Aaron Rai, sem sigraði á 1. móti Evrópumótaraðar karla keppnistímabilið 2018-2019, Honma Hong Kong Open.

Rai lék á samtals 17 undir pari, 263 höggum (65 61 68 69).

Á 2. degi setti Rai m.a. nýtt vallarmet í Hong Kong golfklúbbnum, þar sem mótið fór fram – lék á glæsilegum 9 undir pari, 61 höggi – skilaði „hreinu skorkorti“ þar sem hann fékk 9 fugla og 9 pör. Stórglæsilegt!!!

Fyrir þennan fyrsta sigur sinn á Evrópumótaröð karla hlaut Rai sigurtékka upp á € 292,343, sem er hæsta verðlaunafé á ferlinum til þessa.

Sigurinn var hins vegar naumur aðeins munaði 1 höggi á Rai og landa hans Matthew Fitzpatrick, sem varð í 2. sæti.

Miklar rigningar settu annars svip sinn á þetta mót í Hong Kong.

Til þess að sjá lokastöðuna á Honma Hong Kong Open SMELLIÐ HÉR:

Til þess að sjá hápunkta lokahrings Honma Hong Kong Open SMELLIÐ HÉR: