Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 4. 2012 | 11:30

Evróputúrinn: Peter Hanson kylfingur októbermánaðar

Sænski kylfingurinn Peter Hanson var útnefndur kylfingur októbermánaðar fyrir 2 dögum á Evróputúrnum.

Það kom í kjölfar þess að hann hafði betur á móti nr. 1 á heimslistanum, Rory McIlroy á BMW Masters í Lake Malaren golfklúbbnum í Shanghaí í þeim mánuði

Hanson hlaut ágrafinn disk og risaflösku af Moët & Chandon kampavíni.

Eftir að hann hafði verið útnefndur sagði Hanson: „Mér er svolítið brugðið að hafa unnið til titilsins Kylfingur Mánaðarins! Þetta er mjög fínt sjokk samt og í fyrsta sinn á ferli mínum sem ég hef unnið titilinn og ég hlakka til að setja verðlaunagripinn í skápinn heima.“

„Það er frábært að hafa hlotið viðurkenningu fyrir sigurinn. Ég sagði það þegar ég vann að þetta hafi verið stærsti sigur ferils míns og því meir sem ég horfi aftur til frammistöðu minnar á móti bestu kylfingum heims – sérstaklega Rory sem er óumdeilanlega nr. 1 í augnablikinu – þá gefur það mér mikið sjálfsöryggi og fullnægju.“

Aðrir kylfingar sem hlotið hafa titilinn Kylfingur Mánaðarins á Evróputúrnum eru:  Branden Grace (janúar), Paul Lawrie (febrúar), Rory McIlroy (mars og ágúst), Louis Oosthuizen (april), Luke Donald (maí), Jamie Donaldson (júní), Ernie Els (júlí) og Ian Poulter (september). Allir 9 kylfingarnir munu síðan keppa um Race to Dubai European Tour Kylfingur Ársins titilinn, í árslok.