Axel Bóasson, GK og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir – Íslandsmeistarar í höggleik 2011. Mynd: gsimyndir.is
Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 25. 2017 | 23:00

Evróputúrinn & LPGA: Axel og Ólafía úr leik

Atvinnukylfingarnir og Íslandsmeistararnir í höggleik 2011; Axel Bóasson, GK og Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir, GR, eru úr leik, komust ekki í gegnum niðurskurð; hvort í sínum mótum í sitthvorri heimsálfunni.

Axel lék í sínu fyrsta móti á Evróputúrnum; Made in Denmark mótinu, sem fram fór í Himmerland Golf & Spa Resort í Farsø, Danmörku.

Axel lék á 7 yfir pari, 149 höggum (77 72).

Niðurskurður var miðaður við slétt par (samtals 142 högg) eða betra og er Axel því úr leik.

Til þess sjá stöðuna á Made in Denmark SMELLIÐ HÉR:

Ólafía Þórunn tók þátt í Canadian Pacific Women´s Open, sem er hluti af LPGA mótaröðinni, bestu kvenmótaröð heims, sem hún spilar á –  Mótið fer fram í Ottawa Hunt and Golf Club í Ottawa, Ontario í Kanada,

Þetta var 17. mótið hennar og þetta er í 9. skiptið sem hún kemst ekki gegnum niðurskurð á LPGA.

Ólafía lék samtals á 6 yfir pari, 148 höggum (75 73).

Niðurskurður var miðaður við 2 yfir pari eða betra (samtals 144 högg) og er Ólafía Þórunn því úr leik.

Svona er golfið. Það skiptast á skin og skúrir og það er það sem gerir leikinn okkar svo ótrúlega skemmtilegan; en vonandi er að báðum gangi sem allra best á næstu mótum sínum!!!

Til þess að sjá stöðuna á Canadian Pacific Women´s Open SMELLIÐ HÉR: