Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 20. 2013 | 12:55

Evróputúrinn: Jamie Donaldson stóð uppi sem sigurvegari í Abu Dhabi – Myndskeið

Þvílíkt drama á lokaholunum í Abu Dhabi. Það leit út eins og Wales-verjinn Jamie Donaldson, ætti sigurinn vísan á Abu Dhabi HSBC Golf Championship…. en svo fékk hann skramba á 18. holu og allt galopnaðist aftur. Þess mætti geta að í 3 fyrstu hringjum sínum var hann tvívegis búinn að fá fugl á holuna og spurning hvort taugarnar hafi eitthvað gefið sig á 18. eða hann hafi bara verið svona óheppinn?

Donaldson spilaði á samtals 14 undir pari, 204 höggum (67 70 69 68). Hann átti glæsihring í dag, þar sem flest féll með honum og hann skilaði  skorkorti upp á 1 skramba (á 18. holu), 4 fugla og 13 pör….. og varð í 1. sæti því…..

Justin Rose rétt missti af möguleikanum af því að komast í bráðabana með lokapúttinu. Justin Rose  (67 69 68 71) varð í 2. sæti ásamt  Thorbjörn Olesen (68 69 69 69), en báðir spiluðu á 13 undir pari, 205 höggum.

Þar með bar Donaldson sigurorð af nr. 1, nr. 2,  nr. 5 og nr. 9 á heimslistanum!!!  Hér má sjá myndskeið hvernig Donaldson tókst að ná forystunni SMELLIÐ HÉR: 

Donaldson sagði m.a. eftir að honum hafði verið afhentur verðlaunagripurinn: „Þetta er óraunverulegt – ég komst upp með morð á síðustu holu og var heppinn!!! Ég hélt að þetta færi í bráðabana, en þetta var bara vikan mín.  Ég er mjög ánægður með að standa hér og halda á verðlaunagripnum.“

Fyrir sigurinn hlýtur Donaldson tékka upp á €336.726  (u.þ.b. 58 milljónir íslenskar krónur)

Sir Henry Cotton nýliði ársins á Evrópumótaröðinni 2012, Portúgalinn Ricardo Santos varð í 4. sæti á 11 undir pari, 207 höggum. Í 5. sæti varð Branden Grace á samtals 10 undir pari og 6. sætinu deildu þeir Martin Kaymer, David Howell og Joost Luiten á samtals 9 undir pari, hver.

Til þess að sjá úrslitin á Abu Dhabi HSBC Golf Championship SMELLIÐ HÉR: