Guðmundur Ágúst
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 27. 2022 | 13:04

Evróputúrinn: Guðmundur Ágúst náði ekki niðurskurði – Bradbury sigraði

Guðmundur Ágúst Kristjánsson keppti í sínu fyrsta móti fullgildur meðlimur Evrópumótaraðarinnar, en náði því miður ekki niðurskurði að þessu sinni.

Fall er fararheill – Gengur betur næst!!!

Mótið, Joburg Open fór fram í Houghton GC, í Jóhannesarborg, Suður-Afríku, dagana 25.-27. nóvember og lauk fyrr í morgun.

Til þess að komast gegnum niðurskurð varð að spila tvo hringi á samtals sléttu pari eða betur.

Óvenju slök byrjun Guðmundar Ágústs gerði í raun út um vonina að komast áfram, en hann lék fyrsta hring á 6 yfir pari, 77 höggum og seinni hringinn síðan á pari, 71 höggi.

Sigurvegari í mótinu varð Englendingurinn Dan Bradbury en hann lék samtals á 21 undir pari, 263 höggum (63 66 67 67). Í 2. sæti varð Finninn Sami Välimäki, á samtals 18 undir pari.  Í þriðja sætið settust síðan tveir heimamenn: Daníel Van Tonder og Christiaan Bezuidenhout, báðir á samtals 17 undir pari, hvor.

Sjá má lokastöðuna á Joburg Open með því að SMELLA HÉR: 

Í blálokin er e.t.v. vert að geta þess, að sú sem ritar þessa frétt hefir skrifað úrslitafréttir frá Joburg Open nú, um 13 ára skeið og það er óneitanlega mun skemmtilegra að skrifa þegar Íslendingur er meðal keppanda. Takk Guðmundur Ágúst!!! Þó Guðmundur Ágúst kæmist aldrei í gegnum niðurskurð, sem er nú samt vonandi að hann geri,  þá er stoltið óendanlegt að hafa hann meðal keppenda.  Það veit enginn nema hann hversu erfið þessi mót eru, en hann er svo sannarlega meðal jafningja þarna!!! Ótrúlega flottur árangur!!! Áfram Guðmundur Ágúst!!!