Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 12. 2023 | 12:00

Evróputúrinn: Guðmundur Ágúst með sinn besta árangur & ás í Singapúr!!!

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GKG, náði sínum besta árangri á DP World Tour atvinnumótaröðinni á Singapúr Classic mótinu sem lauk snemma í morgun, sunnudaginn 12. febrúar 2023.

Lokahringurinn var eftirminnilegur hjá Guðmundi Ágústi þar sem hann sló draumahöggið á 11. holu af um 180 metra færi – og fór holu í höggi.

Hann lék hringina fjóra á 6 höggum undir pari vallar eða 282 höggum. Hann fékk alls 19 fugla á hringjunum fjórum og einn örn þegar hann fór holu í höggi á lokahringnum. Hann endaði í 49. sæti og fór upp um 17 sæti á lokahringnum.

Eins og áður segir var lokahringurinn eftirminnilegur – en Guðmundur Ágúst hóf leik á 10. teig þar sem hann fékk fugla og á 2. holu dagsins, þeirri 11. sló hann draumahöggið. Hann tapaði höggi á 13. með skolla eða +1, en hann lék síðari 9 holurnar á 4 höggum undir pari með því að fá tvo fugla í röð í tvígang, fyrst á 1. og 2. holu og aftur á 4. og 5. holu.

Guðmundur Ágúst fékk rúmlega 7800 Evrur í verðlaunafé eða rúmlega 1,2 milljónir kr. Guðmundur fékk einnig sín fyrstu stig á stigalista DP World Tour er hann í sæti nr. 205 af alls 239 keppendum sem hafa náð stigum á tímabilinu.

Ockie Strydom frá Suður-Afríku sigraði á 19 höggum undir pari samtals en hann lék lokahringinn á 63 höggum eða -9 og fór upp um 10 sæti á lokahringnum. Strydom fékk rúmlega 300.000 Evrur í verðlaunafé eða tæplega 50 milljónir kr.

Næsta mót á DP World Tour fer fram í Bangkok í Taílandi dagana 16.-19. febrúar 2023. Guðmundur Ágúst er á biðlista fyrir mótið og eru 6 kylfingar fyrir framan hann í röðinni.