Ragnheiður Jónsdóttir | október. 27. 2013 | 10:30

Evróputúrinn: Gonzo vann í Shanghaí

Það var spænski kylfingurinn Gonzalo Fdez-Castaño sem sigraði á BMW Masters í Lake Malaren í Shanghaí, Kína, í morgun.

Það var erfiður lokahringurinn hjá Gonzalo, sem kallaður er Gonzo af vinum sínum, a.m.k. hefir honum verið ansi ómótt á síðustu holunni þar sem hann fékk skramba þ.e. var með 6 högg á par-4 holunni, þar sem hann lenti m.a. tvívegis í glompum.

Gonzo var þó búinn að spila svo vel á 17 holunum þar á undan að hann átti inni fyrir skrambanum.

„Ég vissi að þetta yrði ekki auðveldur hringur, sérstaklega þegar litið er til hvernig ég byrjaði,“ sagði Gonzo m.a. eftir að sigurinn var í höfn. „En kylfusvinninn minn hélt mér svölum og sagði mér hversu vel ég hefði verið að slá alla vikuna og ég spilaði bara frábærlega eftir það.“

„Á síðustu holu spilaði ég of íhaldsamt og varð að berjast fyrir þessari sexu allt til enda.“

„BMW er einn af mestu stuðningsaðilum Evróputúrsins í gegnum árum, þeir vita hvernig á að halda mót og láta öllum keppendum líða þægilega. Þetta var bara ansi mikið eins og maður væri að spila heima hjá sér og það voru líka frábærir áhorfendur í þessari viku. Mér finnst þeir hafa verið ansi undraverðir.“

Samtals lék Gonzalo á 11 undir pari, 277 höggum (71 71 67 68) og eins og segir mátti engu muna í lokinn en Francesco Molinari og Thongchai Jaidee, sem voru í 2. sæti voru aðeins 1 höggi á eftir.

Í 4. sæti var síðan maðurinn, sem búinn var að leiða mestallt mótið, Bandaríkjamaðurinn Luke Guthrie á samtals 9 undir pari.

Thomas Björn, Peter Uihlein og Pablo Larrazabal deildu síðan 5. sætinu á samtals 8 undir pari, hver.

Henrik Stenson varð í 34. sæti, en hann hefir átt í úlnliðsmeiðslum og fann sig ekki fyrr en á lokahringnum, sem hann lék á 65 höggum (eftir að hafa áður verið búinn að spila á 72 74 79) – en þetta eru góðar fréttir að hann sé e.t.v að koma til!

Til þess að sjá lokastöðuna á BMW Masters SMELLIÐ HÉR: 

Til þess að sjá hápunkta 4. og lokahringsins á BMW Masters SMELLIÐ HÉR: