Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 12. 2011 | 10:00

Evróputúrinn: Gonzalo Fernandez Castaño í 1. sæti fyrir lokahringinn á Barclays

Gonzalo Fernandez-Castaño er með 3 högga forystu fyrir lokadag Barclays Singapore Open þegar slæmt veður knúði skipuleggjendur mótsins til þess að stytta það í 54 holu mót.

Spánverjinn (Gonzalo) – sem þjáðst hefir af bakverkjum mestallt árið og er fallinn niður í 194. sæti á heimslistanum – lauk 2. hring á 61 höggi, áður en þrumur og eldingar neyddu kylfinga til þess að hætta leik.

Á -15 undir pari er hinn fjórfaldi sigurvegari á Evróputúrnum í 1. sæti á undan þeim Edoardo Molinari og James Morrison – en sá síðastnefndi sló ekki einn einasta bolta í dag (enda bara verið að klára 2. hring í dag, þegar 3. hringurinn hefði átt að fara fram, en James Morrison lauk leik í gær og leiddi, en þá áttu Gonzalo og Edoardo eftir að ljúka leik).

Heilum 2 höggum á eftir James Morrison, átti Gonzalo eftir að spila seinni 9 á hinum erfiðari Tanjong golfvelli og þar setti hann niður 5 glæsifugla og náði góðu forskoti fyrir lokahringinn.

Eftir að hafa ekki komist í gegnum niðurskurð í Miðausturlöndum í upphafi keppnistímabilsins, leitaði hinn 31 ára Gonzalo loks læknishjálpar við bakmeiðslum sínum og kom aftur í júlí og komst þá enn ekki í gegnum niðurskurð á Írlandi.

Hann hlaut launatékka í Tékklandi, Sviss og Austurríki en það var endurkoma hans til föðurlandsins, Spánar sem endurlífgaði og blés lífi í fremur aumlega frammistöðu þessa fyrrum British Masters sigurvegara (Gonzalo).

Hann varð í 6. sæti í Bankia Madrid Masters og síðan í 2. sæti á Castelló Masters, en með því sæti tryggði hann sér kortið sitt á Evrópumótaröðinni á næsta ári og kom honum í 126. sæti heimslistans.

En nú hefir hann frábært tækifæri til þess að vinna 5. sigur sinn á Evrópumótaröðinni, sem einnig myndi fá honum þátttökurétt á Dubai World Championship presented by DP: World.

„Þetta er svo sannarlega búinn að vera langur dagur” sagði hann (Gonzalo). „Það byrjaði vel hjá mér en síðan hef ég bara verið í bið allan daginn eins og hinir og það er ekki kjöraðstaða.“

„Það er synd að búið skuli vera að stytta mótið í 54 holur. Það er gott hjá mér að vera í forystu eftir 36 holur, en ég held ekki að þetta sé nokkuð sem neinn vill – kylfingar, styrktaraðilar, framkvæmdaraðilar, áhorfendur, Sentosa – ég myndi mun fremur vilja spila 72 holur.“

„Þetta er bara synd og skömm eins og sagt er. Barclays er meiriháttar styrktaraðili og þetta er eitt besta mótið á dagskránni og maður vill ekki sjá þetta ske, en það er ekkert sem hægt er að gera við veðrinu.“

Stöðuna á Barclays Singapore Open eftir 2. dag má sjá HÉR: 

Heimild: europeantour.com