Ragnheiður Jónsdóttir | september. 16. 2012 | 17:30

Evróputúrinn: Gonzalo Fdez-Castaño sigraði á BMW Italian Open

Það var Spánverjinn Gonzalo Fdez-Castaño sem stóð uppi sem sigurvegari á BMW Italian Open. Hann spilaði hringina 4 á samtals 24 undir pari, 264  höggum (68 65 67 64) og hlaut að launum sigurtékkann upp á € 250.000,-

Hringurinn í dag var einkar glæsilegur hjá Fdez-Castaño en hann lauk mótinu á 64 höggum, fékk 8 fugla og 10 pör, sem sagt „hreint“ skorkort.

Fdez-Castaño átti 2 högg á þann sem varð í 2. sæti, Garth Mulroy frá Suður-Afríku. Mulroy spilaði samtals á 22 undir pari, 266 höggum (66 67 66 67).

Í 3. sæti voru síðan heimamaðurinn Matteo Manassero og Frakkinn Grégory Bourdy á 20 undir pari, hvor.

„Að komast ekki í Ryder Cup liðið voru vonbrigði,“ sagði Fdez-Castaño. „(Fyrir daginn í dag) var ég með sigur, tvisvar sinnum 2. sætið og einu sinni 3. sætið og það var ekki nógu gott. Þetta er erfitt,“ sagði Fdez-Castaño eftir sigurinn á BMW Italian Open.

Ryder Cup liðsmönnunum gekk ekkert vel í þessu móti: Martin Kaymer og Nicolas Colsaerts deildu 5. sætinu ásamt Englendingnum Gary Boyd og Spánverjanum Pablo Larrazábal á 18 undir pari, hver.  Það þýðir að 6 kylfingar í Evrópu eru að spila betur eða jafnvel og Kaymer og Colsaerts og spurning hvort Olazabal hafi valið rétt í Ryder Cup liðið?

Til þess að sjá úrslitin á BMW Italina Open SMELLIÐ HÉR: